Flugfélagið WOWAIR var stundvísara en Icelandair bæði í brottfarar- og komuflugi í septembermánuði. Bæði íslensku félögin voru stundvísari en breska lágfargjaldarflugfélagið easyJet í mánuðinum, en þessi þrjú flugfélög voru skráð með fleiri en 50 flug frá Íslandi í september. Þetta kemur fram í tölum sem bókunarsíðan Dohop hefur tekið saman.
Við útreikninga sína á stundvísi flugfélaganna notaðist Dohop við tölur frá Isavia. Fyrirtækið sótti upplýsingar um áætlaða brottfara- og komutíma einstakra fluga og bar þær tölur saman við það hvenær flugvélarnar fóru rauverulega í loftið.
Útreikningarnir sýna að 85 prósent brottfara Icelandair, sem flýgur langflest flug til og frá Íslandi, hafi verið á réttum tíma. Meðaltöf í brottfararflugunum var 9,69 mínútur. Hlutfall komufluga sem komu á réttum tíma var 86 prósent og meðaltöf þeirra var 6,88 mínútur.
WOWAir stóð sig aðeins betur. Hlutfall brottfara sem fóru á réttum tíma var 87 prósent og meðaltöf þeirra í mínútum 8,85 mínútur. Hlutfall komufluga sem lentu á réttum tíma var 88 prósent og meðaltöf 6,12 mínútur.
EasyJet rekur lestina í stundvísi hjá þeim félögum sem fljúga fleiri en 50 flug til og frá Íslandi. Hlutfall brottfara sem fóru á réttum tíma hjá breska félaginu var einungis 63 prósent og meðaltöf í mínútum var 14,28 mínútur. Hlutfall komufluga EasyJet á réttum tíma var aðeins betra, eða 77 prósent. Meðaltöf í mínútum hjá þeim flugum var 7,09 mínútur.