Bandaríska streymiþjónustan Netflix tilkynnti í gær að starfsfólk hennar geti tekið ótakmarkað fæðingarorlof á fullum launum innan fyrsta árs frá því að barn fæðist eða er ættleitt. Sömuleiðis er þeim foreldrum sem starfa hjá Netflix gert kleift að koma og fara úr vinnu á þessu tímabili eins og þeim sýnist. Fæðingarorlofið stendur báðum kynjum til boða.
Í tilkynningu frá Netflix vegna þessa kemur fram að fyrirtækið vilji að starfsmenn þess hafi sveigjanleika og sjálfstraust til þess að finna jafnvægi milli þarfa stækkandi fjölskyldu sinna án þess að hafa áhyggjur af vinnu eða fjármálum. „Áframhaldandi árangur Netflix byggir á því að við getum keppt um og haldið hæfileikaríkustu einstaklingununum á hverju sviði fyrir sig. Reynslan sýnir að einstaklingar standa sig betur í vinnu þegar þeir hafa ekki áhyggjur af heimilislífinu,“ segir einnig í tilkynningunni.
Netflix vill að starfsfólk sitt þurfi ekki að hafa áhyggjur af vinnu eða fjármálum á meðan að það er í fæðingarorlofi.
Færri feður í orlof á Íslandi en fyrir hrun
Á Íslandi leggur hið opinbera línurnar varðandi fæðingarorlof, þótt sum fyrirtæki hafi tekið upp þá stefnu að greiða starfsmönnum sínum viðbótargreiðslur á meðan að þeir taka slíkt orlof. Eftir bankahrun hefur hlutfall feðra sem taka fæðingarorlof hríðfallið og hlutfall feðra sem tóku fæðingarorlof árið 2013 var það lægsta í yfir áratug.
Í frétt Kjarnans frá því í nóvember 2014 sagði að níu af hverjum tíu feðrum hafi tekið fæðingarorlof árið 2009, en á árinu 2013 hafi hlutfallið hafi lækkað um þrettán prósent og verið um 77 prósent.
Um þessar mundir er starfandi starfshópur um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála, sem Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra skipaði í lok síðasta árs. Ein ástæðan var einmitt sú að sögn ráðherrans að foreldrar hér á landi þurfi að brúa lengsta bilið frá þeim tíma sem fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólaganga hefst. Sú ákvörðun síðustu ríkisstjórnar að lækka hámarksgreiðslur úr sjóðnum hafði líka mjög slæm áhrif, sérstaklega á töku feðra á fæðingarorlofi, sem er mikið jafnréttismál.
Mjög vinsælt á Íslandi þrátt fyrir að vera ekki í boði
Netflix er streymiþjónusta þar sem hægt er að nálgast mikið magn kvikmynda, sjónvarpsþátta, barnaefnis, heimildarmynda og annars áhorfanlegs efnis. Þjónustan hefur þann augljósa kost fram yfir línulega sjónvarpsdagskrá að notendur geta horft á það efni sem þeir vilja þegar þeir vilja í nánast hvaða tæki sem þeir vilja. Áskrift að Netflix er auk þess mun ódýrari en áskrift að þeim sjónvarpsstöðum sem hægt er að gerast áskrifandi að á Íslandi.
Þrátt fyrir að þjónusta Netflix sé ekki í boði hérlendis er samt sem áður talið að yfir 20 þúsund íslensk heimili séu með aðgang að veitunni. Þjónustan hefur notið sívaxandi vinsælda síðustu ár, ekki síst eftir að framleiðsla á eigin efni hófst. Þáttaraðirnar House of Cards, Orange is the New Black og fjórða serían af Arrested Development eru allar dæmi um það.