Samtals var 352 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku, frá 10. júlí til 16. júlí. Þar af voru 268 samningar um eignir í fjölbýli, 65 samningar um sérbýli og 19 samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Heildarveltan var 13.042 milljónir króna og meðalupphæð 37,1 milljón króna. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár í dag.
Um er að ræða metfjölda kaupsamninga og veltu á einni viku. Skýringin er fyrst og fremst afstaðið verkfall lögfræðinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, en engum samningum var þinglýst í um tíu vikur á meðan það stóð yfir. Nú er þinglýst á meiri hraða en áður, til þess að vinna á þeim skjölum sem söfnuðust meðan á verkfalli stóð. Fréttastofa RÚV greindi frá því í dag að fjögurra daga skammti af skjölum var þinglýst síðasta laugardag. Því má búast við að tölur yfir fasteignamarkaðinn, sem birtar eru vikulega á vef Þjóðskrár, verði áfram háar á næstu vikum hvað höfuðborgarsvæðið varðar.
Fram kemur í frétt RÚV að um tíu manns hafi verið ráðnir til þess að hjálpa við að vinda ofan af þeim mikla fjölda sem bíða afgreiðslu hjá embættinu. Misvel gengur að komast í gegnum skjalabunkana og enn bíður mikill fjöldi skjala þinglýsinga.