Starfsgreinasambandið segir að atvinnurekendur þurfi að þrýsta á heildarsamtök sín um að láta af óbilgirni við samningaborðið og mæta „eðlilegum kröfum sambandsins um hærri lágmarkslaun“. Það sé leiðin til þess að komast hjá verkföllum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu.
Rafræn kosning um verkfall félagsmanna í Starfsgreinasambandinu hófst í morgun og stendur yfir í viku. Það verður því ljóst fyrir páska hvort félagsmenn séu reiðubúnir í verkfall. Sambandið hefur nú þegar gefið út að verkfallsaðgerðir myndu hefjast 10. apríl með vinnustöðvun frá hádegi til miðnættis og svo staðbundnum verkföllum eftir það. Ef ekki takist að semja verði ótímabundin vinnustöðvun frá 26. maí.
Starfsgreinasambandið hefur gert kröfu um að lágmarkslaun verði hækkuð í 300 þúsund krónur innan þriggja ára. Þessu hafa Samtök atvinnulífsins hafnað á þeim forsendum að miklar launahækkanir muni leiða til mikillar verðbólgu og stökkbreyta verðtryggðum skuldum, hækka vexti og fella gengi krónunnar.
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir í tilkynningunni að félagsmenn Starfsgreinasambandsins séu sammála um að nú sé komið að ögurstundu í kjarabaráttu. „Það verður ekki liðið að fólk sem vinnur fyrir lægstu laununum á Íslandi eigi að bera ábyrgð á stöðugleika og lágri verðbólgu. Það er ávísun á aukna misskiptingu. Samfélag þar sem einhver er skilinn eftir er ekki gott samfélag.“