Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands vill að lægstu laun hækki í 300 þúsund krónur, sem er hækkun sem nemur um fjörutíu prósentum.
Þetta kemur fram í kröfugerð sem samninganefndin afhenti Samtökum atvinnulífsins vegna komandi kjarasamninga í dag. Rúv greindi frá þessu. Kröfugerðin er unnin eftir niðurstöðum viðhorfskannana og fundargerða frá verkalýðsfélögum um allt land.
Starfsgreinasambandið vill að launin hækki úr 214 þúsund í 300 þúsund innan þriggja ára. Einnig er farið fram á endurskoðun launataflna, þannig að menntun og starfsreynsla haldist í hendur við laun og að ný starfsheiti verði skilgreind í launatöflu. Þá eru gerðar kröfur um hækkun á desember- og orlofsuppbótum, tryggingu vaxtabónuss í fiskvinnslu og að vaxtaálag verði endurskoðað.
Í tilkynningu Starfsgreinasambandsins kemur fram að það sé grundvallaratriði að fólk geti lifað af dagvinnulaunum og þurfi ekki auka- og yfirvinnu til að ná endum saman.