Eftir sex mánaða yfirlegu hefur sérstakur starfshópur á vegum Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) nú lagt til að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu karla, sem halda á í Katar árið 2022, verði haldin í lok nóvember til að forðast mikla sumarhita í Mið-Austurlöndum. Frá þessu er greint á vefsíðu FIFA en tillaga starfshópsins var lögð fram á lokafundi hans í Doha.
Samkvæmt fréttinni nýtur tillagan stuðnings allra sex aðildarsambanda FIFA, en hún verður rædd á næsta stjórnarfundi knattspyrnusambandsins dagana 19. og 20. mars næstkomandi.
Þá gerir tillaga starfshópsins ráð fyrir að heimsmeistaramótið verði styttra en venjulega í dögum talið. Samkvæmt heimildum fótboltasíðunnar Teamtalk hefur komið til álita að mótið hefjist 26. nóvember og standi til 23. desember.
Ljóst er að tillagan um að færa heimsmeistaramótið í fótbolta mun mæta mikilli andstöðu frá evrópskum knattspyrnuliðum, en ljóst er að tilfærsla mótsins mun hafa mikil áhrif á Meistaradeild EUFA og helstu knattspyrnudeildir álfunnar.
Verði tillagan samþykkt, sem flest virðist benda til, mun leikjadagskrá landsliða á árunum 2018 til 2024 taka breytingum sem og í helstu knattspyrnudeildum heims.