SKEL fjárfestingafélag hagnaðist um 3,3 milljarða króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2022. Þar skiptir öllu máli að félagið seldi fasteignir sem hýsa starfsemi dótturfélaga þess til fasteignafélagsins Kaldalóns. Söluhagnaður af fasteignasölu á ársfjórðungnum var 4,1 milljarður króna.
SKEL fékk greitt fyrir fasteignirnar með reiðufé upp á 3,6 milljarða króna og með nýjum hlutum sem gefnir voru út í Kaldalóni. Eftir viðskiptin, sem voru frágengin síðasta dag marsmánaðar, er SKEL stærsti hluthafi fasteignaþróunarfélagsins, sem er skráð á First North markaðinn, með 18,05 prósent eignarhlut. Næst stærsti eigandinn er Strengur Holding, móðurfélags Strengs hf. sem er meirihlutaeigandi í SKEL og er stýrt af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Strengur Holding á 12,76 prósent hlut í Kaldalóni.
Þetta kemur fram í árshlutareikningi SKEL fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins.
Forstjórinn sagði af sér í febrúar
Þar segir líka að rekstrarkostnaður félagsins hafi litast af kostnaði vegna uppskiptingar og starfslokakostnaði, sem hafi verið 60 milljónir króna á tímabilinu. Tveir stjórnendur hættu störfum hjá SKEL á fyrstu mánuðum ársins. Fyrst sagði þáverandi forstjóri, Árni Pétur Jónsson, af sér í febrúar. Í tilkynningunni sem hann sendi frá sér sagði Árni Pétur, sem var með um sjö milljónir króna á mánuði í heildarlaun á árinu 2021, að honum hafi borist tölvupóstur frá fyrrum samstarfskonu hans í öðru fyrirtæki, þar sem hann var yfirmaður hennar fyrir um 17 árum síðan. „Þar greinir hún frá því að í dag upplifi hún samskipti okkar á þessum tíma með þeim hætti að ég hafi gengið yfir ákveðin mörk.“
Ólafur Þór Jóhannesson, sem starfaði áður sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs og sem aðstoðarforstjóri Skeljungs, tók við starfinu af Árna Pétri. Hann lét svo af störfum í síðasta mánuði þegar tilkynnt var að Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, þá aðstoðarbankastjóri Arion banka, hefði verið ráðinn forstjóri félagsins og að Magnús Ingi Einarsson, þá framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku banka, hefði verið ráðinn fjármálastjóri þess. Ásgeir mun hefja störf hjá SKEL 9. júlí næstkomandi.
Mikla athygli vakti að bæði Ásgeir Helgi og Magnús Ingi fengu kauprétti um hluti í félaginu í samræmi við kaupréttaáætlun þess sem samþykkt var á síðasta aðalfundi.
Samkvæmt þeirri áætlun, sem tók gildi þann 10. mars, var SKEL heimilt að úthluta kauprétti til lykilstjórnenda félagsins af fimm prósentum af útgefnu heildarhlutafé þess. Markaðsverð þessara kauprétta var á þessum tíma um 1,6 milljarðar króna.
Þessi kaupréttarheimild, sem gildir til ársins 2027, er fullnýtt í nýjum samningum við Ásgeir Helga og Magnús Inga. Samkvæmt tilkynningu sem SKEL sendi frá sér nam virði kaupréttar Ásgeirs 1,02 milljörðum króna, á meðan virði kaupréttar Magnúsar Inga nam 572 milljónum króna.
SKEL stærsti eigandi Kaldalóns
SKEL fjárfestingafélag hét áður Skeljungur í 93 ár. Nafni og tilgangi félagsins var breytt í byrjun þess árs samhliða því að tilkynnt var um 6,9 milljarða króna hagnað á síðasta ári. Sá hagnaður var nær allur tilkominn vegna sölu á færeyska dótturfélaginu P/F Magn á árinu 2021, en bókfærð áhrif þeirrar sölu á tekjur Skeljungs í fyrra voru 6,7 milljarðar króna.
Í fjárfestakynningu sem birt var í kom fram að Skeljungur yrði frá og með febrúar síðastliðnum rekið sem fjárfestingafélag og beri nafnið SKEL fjárfestingafélag. Þar með lauk sögu olíufélagsins Skeljungs á Íslandi, en hún hófst árið 1928.
Strengur, eignarhaldsfélag sem stjórnarformaðurinn Jón Ásgeir fer fyrir, á 50,1 prósent hlut í félaginu og hefur því tögl og hagldir innan þess. SKEL byrjar tilveru sínu með 12 milljarða króna í handbært fé, um 50 prósent eiginfjárhlutfall og einungis tvo milljarða króna í vaxtaberandi skuldum.
Gengi bréfa í félaginu hækkaði um 18,3 prósent á fyrsta ársfjórðungi en handbært fé þess lækkaði niður í 8,9 milljarða króna. Eiginfjárhlutfallið hefur hins vegar styrkst með sölunni til Kaldalóns og er nú 79,4 prósent.
Seldu í Íslandsbanka en byggðu upp stöðu í VÍS
SKEL var á meðal þeirra sem tóku þátt í lokuðu útboði á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka í mars. Alls keypti SKEL fyrir um 450 milljónir króna. Félagið seldi þann hlut með 32 milljóna króna hagnaði um mánuði síðar og bætti samhliða við stöðu sína í tryggingafélaginu VÍS.
Sú staða er ekki öllum skýr þegar horft er á hluthafalista VÍS enda stór hluti eignarinnar, alls 4,8 prósent hlutur, í formi framvirkra samninga við banka og því skráður á þá. Miðað við það að Arion banki, fyrrverandi vinnustaður verðandi forstjóra SKEL, er eini stóri bankinn sem er skráður fyrir stórum hlutum í VÍS má ætla að framvirkir samningar SKEL séu að uppistöðu hjá þeim banka.
Í tilkynningu til Kauphallar sem birt var 26. apríl síðastliðinn kom fram að SKEL væri í reynd fjórði stærsti hluthafinn í VÍS með rúmlega 7,3 prósent eignarhlut. Einn annar stór einkafjárfestir er í VÍS, félagið Sjávarsýn í eigu Bjarna Ármannssonar sem á 6,97 prósent hlut. Aðrir stórir eigendur eru stofnanafjárfestar, aðallega íslenskir lífeyrissjóðir.