Starfsmaður Samkeppniseftirlitsins hefur réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn á leka gagna um rannsókn eftirlitsins á Eimskip og Samskip til Kastljóss síðastliðið haust. Kastljós fjallaði ítarlega um rannsóknina í október síðastliðnum og byggði umfjöllunin á hinum leknu gögnum og kæru Samkeppniseftirlitsins á ellefu starfsmönnum flutningafyrirtækjanna tveggja til embættis sérstaks saksóknara. Rannsókn lögreglu á lekanum hefur staðið frá því í haust, en Eimskip kærði gagnalekann til lögreglu skömmu eftir umfjöllun Kastljóss. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun.
Þar segir enn fremur að lögreglan í Reykjavík hafi lagt hald á ákveðin tölvugögn í Samkeppniseftirlitinu, og að ákveðin tölvupóstsamskipti hafi verið rannsökuð. Þau hafi nú leitt til þess að ákveðinn starfsmaður Samkeppniseftirlitsins hafi nú réttarstöðu sakbornings.