Starfsmaður MP banka sem grunaður er um misferli í starfi er kona sem vann í bakvinnslu í lánaumsýslu bankans. Hún er grunuð um að hafa dregið sér fé. Samkvæmt heimildum Kjarnans er upphæðin nokkrar milljónir króna.
Starfsmönnum MP banka var tilkynnt um málið á starfsmannafundi í gær en konunni var samstundis vikið frá störfum þegar hin meinti fjádráttur uppgötvaðist.
Í Fréttablaðinu í dag er sagt að málið hafi komið upp þegar afleysingarstarfsmanður rakst á að uppgjör innan MP banka stemmdu ekki. Sá gerði stjórnendum bankans viðvart um að ekki væri allt með felldu.
MP banki sendi frá sér fréttatilkynningu í gærkvöldi þar sagði að starfsmanni hefði verið sagt upp störfum vegna gruns um misferli í starfi.
Þar sagði einnig að meint brot starfsmannsins hafi uppgötvast við innra eftirlit og verið tilkynnt til lögreglu. Málið sé litið alvarlegum augum innan bankans en þar er ítrekað að meint brot snúi ekki að fjármunum viðskiptavina bankans. Þá séu áhrifin af meintu misferli á bankann hverfandi með hliðsjón af stærð hans.
MP banki vill ekki greina frekar frá málinu á meðan lögregla hefur það til rannsóknar.