Í ályktun starfsmannafundar Eflingar, sem samþykkt var síðastliðinn föstudag og send til stjórnenda stéttarfélagsins, segir að starfsmenn telji ósanngjarnt að stjórnendur velti ábyrgð á innanhúsmálum yfir á starfsfólk Eflingar. Ástæða hafi verið fyrir ályktun sem samþykkt var af starfsfólki Eflingar í júní síðastliðnum þar sem formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, var meðal annars ásökuð um að halda aftökulista og um að fremja kjarasamningsbrot gegn starfsfólki með fyrirvaralausum uppsögnum. Starfsfólkið óskaði eftir því að stjórnendur Eflingar myndu bregðast við ályktuninni frá því í júní. „Við gerum kröfur á stjórnendur að þau viðurkenni, taki ábyrgð á og leysi vandann. Innan mánaðar óskum við eftir því að halda annan starfsmannafund án stjórnenda.“
Eftir að þessi ályktun starfsfólks lá fyrir ákváðu bæði Sólveig Anna og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, að segja af sér.
Sólveig Anna bauð upp á tvo kosti
Forsaga málsins er sú að í júní samþykktu starfsmenn Eflingar ályktun sem hefur ekki verið birt opinberlega. Í henni voru stjórnendur stéttarfélagsins gagnrýndir með ýmsum hætti fyrir framkomu sína gagnvart starfsfólki. Trúnaðarmenn starfsmanna undirrituðu ályktunina og hún var sett fram fyrir hönd starfsmanna.
Daginn eftir að fréttin birtist, föstudaginn 29. október, ákvað Sólveig Anna að ávarpa starfsfólk í upphafi vinnudags.
Í stöðuuppfærslu sem hún birti á Facebook í gær sagði hún: „Ég sagði við starfsfólk á þessum fundi að það væru tveir kostir í stöðunni. Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu. Það var ekki auðveld ákvörðun fyrir mig að stilla þessu upp svona en það er að mínu mati óhjákvæmilegt. Starf mitt með félagsfólki Eflingar, sem er réttlætisbarátta varðandi kjör og aðstæður verkafólks á vinnustöðum, hefur ekki trúverðugleika ef trúnaðarmenn starfsfólks Eflingar eru tilbúnir að fullyrða að ég reki hér vinnustað jafn slæman eða verri en þeir sem við höfum sjálf gagnrýnt.“
Ástæða fyrir upphaflegu ályktuninni
Sólveig Anna sagðist enn fremur aldrei geta borið þessar ásakanir til baka sjálf. Einungis starfsmenn gætu kveðið upp dóm um réttmæti þeirra. Hún hafi í kjölfarið vikið af fundinum og starfsmenn tekið sér tíma fram yfir hádegi til að ræða saman. Niðurstaða þess samtals hafi verið ályktun þess efnis að starfsmenn teldu það ósanngjarnt að stjórnendur velti ábyrgð á þessum innanhúsmálum á starfsfólkið.
Í ályktuninni, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir orðrétt: „Við lýsum því yfir að ástæða hafi verið fyrir upphaflegu ályktuninni og óskum enn eftir að stjórnendur bregðist við henni. Við gerum kröfur á stjórnendur að þau viðurkenni, taki ábyrgð á og leysi vandann. Innan mánaðar óskum við eftir því að halda annan starfsmannafund án stjórnenda.
Starfsfólk Eflingar fer fram á að reglulegir starfsmannafundir, með og án viðveru stjórnenda, verði haldnir framvegis, og reglulegir fundir trúnaðarmanna með stjórnendum verði settir á laggirnar. Skilningur verði veittur á því að stór hluti starfsmanna hafi fundið og/eða finni til óöryggis í starfi og að það verði ekki leyst án opins samtals innan vinnustaðarins.“
Formaður og framkvæmdastjóri hætta
Þessi niðurstaða gerði það að verkum að Sólveig Anna tilkynnti stjórn Eflingar um afsögn sína um helgina. Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, staðfesti það svo við Kjarnann í morgun að hann myndi fylgja henni út úr félaginu og afhenda uppsagnarbréf síðar í dag.
Viðar var ráðinn í þá nýtt starf framkvæmdastjóra Eflingar í maí 2018, í kjölfar þess að Sólveig Anna var kjörin formaður stéttarfélagsins, sem er það næst fjölmennasta á landinu. Hann hefur alla tíð unnið náið og í takti með formanninum.
Í stöðuuppfærslu Sólveigar Önnu sagði að henni þætti það „ótrúlegt að það sé starfsfólk Eflingar sem í reynd hrekur mig úr starfi, með því að leyfa andstæðingum félagsins að hossa sér á ýkjum, lygum og rangfærslum um mig og samverkafólk mitt. Starfsfólk Eflingar hefur kosið að svipta mig því vopni sem hefur gert mér mögulegt að leiða sögulega og árangursríka baráttu verka- og láglaunafólks síðustu ár, mannorði mínu og trúverðugleika.“