Starfsmenn Fiskistofu í Hafnarfirði réðu almannatengslafyrirtækið Athygli til að aðstoða sig í baráttunni gegn ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra um að flytja stofnunina til Akureyrar. Kostnaður vegna ráðgjafarinnar hljóðaði upp á um 900 þúsund krónur, og var greiddur af stéttarfélagi.
„Í þeirri orrahríð og óvissu sem við starfsmenn Fiskistofu vorum í eftir yfirlýsingar og bréf ráðherra til okkar síðastliðið haust, kom fram sú hugmynd meðal okkar að leita til almannatengslafyrirtækis til að leiðbeina okkur og aðstoða við að koma sjónarmiðum okkar með skipulegum og markvissum hætti á framfæri við Alþingi, ráðuneyti og fjölmiðla. Ástæðan var einfaldlega sú að við áttuðum okkur á því að þessi þekking var, að okkar áliti, ekki til staðar í hópnum,“ segir Guðmundur Jóhannesson, deildarstjóri veiðieftirlitssviðs Fiskistofu, í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans.
Leiðbeint hvernig bera ætti sig að
Guðmundur segir að leitað hafi verið eftir fjölmiðlaráðgjöfinni í október, og hún hafi staðið fram í desember. Í henni fólust fundarhöld með starfsmönnum, þar sem þeim var meðal annars leiðbeint um hvernig bera ætti sig að við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, hvenær ætti að bregðast við og hvernig. Hann segir að starfsmannafélag Fiskistofu hafi enga aðkomu haft að málinu.
„Starfsmenn Fiskistofu leituðu til allra þeirra stéttarfélaga sem við erum félagar í og einnig til Hafnarfjarðarbæjar um stuðning, þar með talin fjárhagslegum til að geta ráðið almannatengslafyrirtæki. Allir þessir aðilar veittu okkur margvíslegan stuðning, enn einungis SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu styrkti okkur fjárhagslega. SFR gaf okkur vilyrði fyrir allt að einni milljón króna til þess að ráða almannatengslafyrirtæki. Í kjölfarið var Athygli ráðið og reyndist það okkur mikill happafengur,“ segir Guðmundur í áðurnefndu svari við fyrirspurn Kjarnans.
„Barátta gegn óréttlæti“
Bréfið sem starfsmenn Fiskistofu sendi Hafnarfjarðarbæ til að óska eftir fjárstuðningi er dagsett 29. október. Þar kemur fram að áætlaður kostnaður vegna fjölmiðlaráðgjafar hafi verið 1,5 milljónir króna. Í bréfinu segir: „Okkur starfsmönnum Fiskistofu var fljótlega ljóst að við stóðum ein og rödd okkar var hjáróma og veik í þessu gjörningaveðri. Jafnframt var okkur það ljóst að til þess að einhver von væri til að snúa þessari ólögmætu og óviturlegu ákvörðun við, þá urðum við að skipuleggja málflutning okkar og fá utanaðkomandi ráðgjafa til að ráða okkur heilt. Það er hvernig baráttunni gegn þessu óréttlæti skyldi hagað, við hverja við ættum að tala máli okkar, hvernig og hvenær það skyldi gert, hvaða rökum skyldi teflt fram og svo framvegis.“
Undir bréfið rita fyrrnefndur Guðmundur Jóhannesson og Björn Jónsson lögfræðingur hjá Fiskistofu. Hafnarfjarðarbær varð ekki við ósk starfsmanna Fiskistofu um fjárstuðning vegna fjölmiðlaráðgjafar.