Starfsmenn Fiskistofu mótmæla harðlega breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands, sem samþykktar voru á þingi í síðustu viku. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem starfsmennirnir hafa sent frá sér, eftir almennan fund þeirra í morgun.
Samkvæmt lögunum mega ráðherrar flytja stofnanir sem undir þá heyra milli staða. Sú heimild var í lögum en var felld brott árið 2011 áður en hún var svo sett aftur inn nú. Í meðförum þingsins var ákveðið að bæta því við að ráðherrar þurfi að flytja Alþingi skýrslu um áform sín áður en ákvörðun er tekin. Starfsmenn Fiskistofu benda hins vegar á að ákvæði um að flytja þurfi skýrslu tekur ekki gildi 1. september 2015. „Það þýðir að ráðherra kann að álykta að hann geti farið óhindrað fram í flutningi Fiskistofu til Akureyrar, innan þess tíma, taki hann ákvörðun þar um.“
Eins og kunnugt er tilkynnti Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, óvænt um það í fyrra að Fiskistofa ætti að flytjast til Akureyrar. Starfsmenn Fiskistofu hafa barist grimmt gegn þessu, leituðu meðal annars til umboðsmanns Alþingis og á endanum var hætt við hraðan flutning stofnunarinnar. Þá var ákveðið að núverandi starfsmenn ættu að hafa val um það hvort þeir störfuðu á Akureyri eða í Hafnarfirði þar sem stofnunin er nú, utan Fiskistofustjóra, sem flyst til Akureyrar. Það var meðal annars þetta mál sem varð til breytinganna á lögunum um stjórnarráðið, því gagnrýnt hafði verið að Sigurður Ingi hefði ekki lagaheimild til að ákveða að færa stofnun milli staða.
„Starfsmenn Fiskistofu skora á ráðherra að hverfa alfarið frá áformum sínum um fyrirhugaðan flutning Fiskistofu,“ segja starfsmennirnir í yfirlýsingu. Þeir segjast telja að ráðherrann verði að ígrunda vandlega ábendingar umboðsmanns Alþingis, og virða þurfi aðrar reglur stjórnsýslunnar en lagaheimildina. Þeir áforma að mynda starfshóp til að standa vörð um loforð ráðherra og vandaða stjórnsýsluhætti komi til flutnings höfuðstöðva Fiskistofu.
„Það er gert til að tryggja að staðið verði við yfirlýsingar ráðherra, varðandi réttmætar væntingar núverandi starfsmanna Fiskistofu, sem fram koma í bréfi hans 13. maí sl. Starfsmenn Fiskistofu ætla jafnframt með öllum ráðum að koma í veg fyrir að farið verði gegn fyrirheitum ráðherra, með þrýstingi eða sniðgöngu, um að núverandi starfsmenn stofnunarinnar hafi val um starfsstöð.“