Tugir núverandi og fyrrverandi starfsmanna Kaupþings munu fá háar bónusgreiðslur hver takist að ljúka nauðasamningi slitabúsins. Þeir sem fá fá hæstu greiðslurnar, lykilstarfsmenn og æðstu stjórnendur slitabús Kaupþings, geta búist viðað fá bónusgreiðslur sem nema allt að árslaunum þeirra, eða 30 til 50 milljónir króna hver. Frá þessu er greint í DV í dag.
Þar segir að flestir starfsmenn hafi samið um bónusgreiðslur upp á fimm til tíu milljónir króna verði nauðasamningur samþykktur af dómstólum. Samkvæmt ársreikningi Kaupþings fyrir árið 2014 námu meðallaun hvers starfsmanns 1,6 milljónum króna á mánuði. Á síðasta ári störfuðu um 50 manns hjá Kaupþingi en þeim hefur fækkað umtalsvert undanfarin misseri samhliða því að eignum hefur verið umbreytt í lausafé.
Í DV segir að samningar um bónusana hafi flestir verið gerðir á árunum 2012 og 2013. Kaupþing vildi ekki svara fyrirspurn blaðsins um hversu margir núverandi eða fyrrverandi starfsmenn slitabúsins fá greidda bónusa við staðfestingu nauðasamnings. Á meðal þeirra lykilstarfsmanna og stjórnenda sem munu fá hæstu greiðslurnar samkvæmt DV eru: Jóhann Pétur Reyndal, Marínó Guðmundsson, Hilmar Þór Kristinsson og Þórarinn Þorgeirsson. Jóhann pétur er yfir eignastýringu Kaupþings en Marínó og Hilmar starfa undir honum. Þórarinn er yfirlögfræðingur slitabúsins og tók við því starfi þegar Kolbeinn Árnason réð sig sem framkvæmdastjóri LÍU, sem nú heita Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, sumarið 2013. Hann hefur veitt Kaupþingi ráðgjöf eftir að hann lauk störfum hjá slitabúinu.