Starfsmenn í stærstu rekstrarfélögum verðbréfasjóða á íslenskum fjármálamarkaði fá almennt að meðaltali um 1.300 þúsund til 1.600 þúsund krónur í laun á mánuði. Stefnir, stærsta sjóðastýringarfélag landsins og er í eigu Arion banka, og Júpíter, sem er í eigu MP banka, greiddu hæstu launin af slíkum félögum á síðasta ári. Meðalmánaðarlaun starfsmanna þessara félaga námu liðlega 1,6 milljónum króna.
Þetta kemur fram í umfjöllun DV um laun starfsmanna sjóðastýringafélaga á síðasta ári. Upplýsingarnar eru úr ársreikningum félaganna og taka ekki tillit til mögulegra bónusa sem starfsmenn sumra félaganna kunna að hafa fengið. Fram kemur í frétt DV að umsvif sjóðastýringarfélaga hafi farið vaxandi á undanförnum árum, samhliða því að verðbréfamarkaður hefur tekið við sér. Meðallaun hafa hækkað umtalsvert undanfarin ár og í tilfelli Stefnis hafa þau nærri tvöfaldast frá árinu 2009.
Meðallaun starfsmanna Íslandssjóða, sjóðatýringarfélags Íslandsbanka, námu um 1.280 þúsund krónum á mánuði í fyrra en meðalfjöldi starfsmanna var 16,6. Landsbréf, félag Landsbankans, greiddi 19 starfsmönnum að meðaltali sömu upphæð. Meðallaun á mánuði hjá Gamma námu um 1.010 þúsund krónum á mánuði en 17 störfuðu hjá félaginu í fyrra að jafnaði. Hjá Stefni voru meðallaunin 1.570 þúsund krónur og meðalfjöldi starfsmanna 22. Júpíter greiddi starfsmönnum sínum, sem voru að meðaltali 4,5 talsins í fyrra, 1.610 þúsund krónur á mánuði.