Stafrænt ráð Reykjavíkurborgar hafnaði á fundi sínum í síðustu viku tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að ráðist yrði í „stafræna umbreytingu“ við skráningu á máltíðum starfsmanna Reykjavíkurborgar í ráðhúsinu og á Höfðatorgi, en tillagan var lögð fram í borgarráði í september.
Ráðist var í úttekt á vegum þjónustu- og nýsköpunarsvið vegna tillögunnar og var það mat sviðsins að það svaraði tæplega kostnaði að ráðast í þetta verkefni, auk þess sem að helsti flöskuhálsinn sem myndaðist í mötuneytunum væri ekki vegna skráningar máltíða heldur þess tíma sem það tæki starfsmenn borgarinnar að raða matvælum á diska sína.
Í tillögu sjálfstæðismanna var vakin athygli á því að í mötuneytunum væri „búnaður, sem ætlað er að lesa af aðgangskortum starfsfólks, og skrá þannig máltíðir þeirra með stafrænum hætti“, en umræddur búnaður hefði ekki virkað í mörg ár.
„[Þ]arf starfsfólk því að slá kennitölur sínar inn í tölvuna með handvirkum hætti í hvert sinn, sem það fær sér máltíð, eða skrifa jafnvel þessar upplýsingar á pappír, sem liggur frammi í mötuneytunum í þessu skyni. Markmið tillögunnar er að flýta fyrir afgreiðslu í mötuneytunum þar sem núverandi fyrirkomulag leiðir til tafa og biðraðamyndunar. Úrbætur varðandi þetta einfalda atriði myndi einnig eflaust auka trúverðugleika Reykjavíkurborgar gagnvart starfsfólki sínu og gera það jákvæðara varðandi þá stafrænu vegferð, sem borgin er á,“ sagði í tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks, sem vakti nokkra athygli er hún var lögð fram.
Helsti flöskuhálsinn þar sem fólk var að skammta sér
Sem áður segir var ráðist í úttekt vegna tillögunnar og segir í umsögn þjónustu- og nýsköpunasviðs borgarinnar að fulltrúar verkefnaráðs hafi farið í vettvangsrannsókn í mötuneytin tvö í þessu skyni dagana 19.-25. september.
„Tímamælingar í mötuneyti leiddu í ljós að meðaltími við innslátt starfsfólks á kennitölu sinni var 4,5 sekúndur fyrir hvern starfsmann. Starfsmaður þarf í kjölfarið að velja á snertiskjá þá hluti sem viðkomandi er að versla sér í mötuneytinu og samþykkja greiðslu. Síðan þarf starfsmaðurinn að fylgja röð annars starfsfólks í sömu erindagjörðum og raða matvælum á diskinn sinn. Við athugun á ferlinu kom í ljós að helsti flöskuhálsinn í þessu ferli er röðin sem myndast við matarílát og matvæli. Sjálfsafgreiðsla matvæla getur tekið sinn tíma og í því ferli geta myndast flöskuhálsar þegar starfsfólk velur á milli fjölda valkosta, s.s. salat, brauð, súpu, grænkerafæðis, kjöts eða fisks, meðlætis, sósu, olíu og ávaxta, m.t.t. hollustu, næringargildis, lífsstíls eða jafnvel líðan viðkomandi starfsmanns þann daginn,“ segir í umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
Mötuneytin opna nú fyrr
Þar kemur einnig fram að þegar vettvangsrannsóknin var framkvæmd hafi opnunartími mötuneytanna verið frá kl. 11:30 til 13 og að í ljós hafi komið að biðraðir mynduðust helst frá 11:30 til 12 en að á milli 12 og 13 hafi jafnan verið litlar eða engar biðraðir.
„Þann 3. október s.l. var tekin ákvörðun að breyta opnunartíma mötuneytanna á þann hátt að þau séu opin kl 11:00 til 13:00. Við þá framkvæmd styttust biðraðir og hægt er að draga þá ályktun að það sé vegna þess að álagið dreifðist betur yfir lengri opnunartíma,“ segir einnig í umsögninni.
Kostnaðarsamt og flókið
Í umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs segir að tölvukerfið sem notað sé í mötuneytinu sé „vissulega komið til ára sinna“ og að í „fullkomnum heimi væri æskilegt að uppfæra það og gera notendaupplifunina af því betri“. Þess er einnig getið að aldur kerfisins sé ein helsta ástæða þess að ekki er lengur unnt að láta kerfið lesa upplýsingar af starfsmannakortum.
„Tengingar mötuneytiskerfisins við undirliggjandi kerfi eru flóknar og í kjölfarið þyrfti að uppfæra fleiri bókhaldskerfi. Það að uppfæra mötuneytiskerfið er því ekki aðeins verkefni sem felur í sér að skipta um eða bæta við einum skanna því það þyrfti alltaf að koma til val hvers starfsmanns á skjá um hvers konar vörur viðkomandi er að versla. Hjá því væri aðeins hægt að komast ef nýtt sjálfsafgreiðslukerfi yrði keypt eða þróað. Slíkar fyrirmyndir eru til á markaði, t.d. „skannað og skundað“ sem Krónan nýtir sér eða lausn byggð á fyrirmyndum frá Amazon,“ segir í umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
Þar segir einnig ljóst að þegar litið sé til sambærilegra verkefna að ábati verkefnisins myndi tæplega svara kostnaði, þar sem verkefnið hefði „takmörkuð áhrif á þjónustu við íbúa og starfsfólk þar sem fjöldi notenda er aðeins það starfsfólk Reykjavíkurborgar sem starfar í stjórnsýsluhúsunum tveimur, Ráðhúsi og Höfðatorgi“.
„Þjónustu- og nýsköpunarsvið fagnar tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Það er ánægjulegt að sjá að borgarfulltrúar séu meðvitaðir um mikilvægi stafrænna umbreytinga á upplifun borgarfulltrúa og starfsfólks Reykjavíkurborgar. Hins vegar er það mat sérfræðinga þjónustu- og nýsköpunarsviðs að tillagan sem slík sé líkleg til að verða kostnaðarsöm og flókin og sé ekki líkleg til að hafa mikil áhrif á þjónustu við stóran hóp starfsfólks,“ sagði í niðurstöðu sviðsins.
Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins var sem áður segir felld, með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Viðreisnar og Sósíalistaflokks gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks á fundi ráðsins síðasta miðvikudag.