Viðskiptahraðallinn Startup Reykjavík hlaut viðurkenningu sem besti viðskiptahraðall Norðurlanda á Nordic Startup Awards í gær. Í dómnefnd fyrir verðlaunin voru um tuttugu einstaklingar, frumkvöðlar, fjárfestar, stjórnendur og aðrir sérfræðingar. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á sæti í dómnefndinni fyrir hönd Íslands.
Startup Reykjavík fer fram í fjórða sinn í sumar, en það eru Arion banki og Klak Innovit sem standa að hraðlinum.
„Við erum gríðarlega stolt af því að hljóta viðurkenningu Nordic Startup Awards úr hópi öflugra viðskiptahraðla í nágrannalöndum okkar. Ég er sannfærð um að stöðugar umbætur í framkvæmd, aðkoma lykilaðila innan sprotasamfélagsins og sterk tengsl við erlendar fyrirmyndir hafi skilað okkur þessum árangri,” segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klak Innovit, í tilkynningu um verðlaunin.
Nordic Startup Awards voru haldin í Helsinki í Finnlandi í gær og voru veitt verðlaun í ellefu flokkum.