Stefán Einar Stefánsson, sem hefur verið fréttastjóri viðskiptadeildar á Morgunblaðinu frá því í september 2018, hefur látið af því starfi. Þess í stað mun hann sinna verkefnum utan fjölmiðla og halda áfram þáttastjórnun í vefþáttunum Dagmálum á mbl.is. Stefán Einar hefur undanfarin ár flutt inn kampavín auk þess sem hann á hlut í bókaútgáfu ásamt eiginkonu sinni og vinahjónunum Rakel Lúðvíksdóttur og Gísla Frey Valdórssyni.
Á vef mbl.is í dag kemur fram að Gísli Freyr taki við sem nýr fréttastjóri viðskiptadeildar á Morgunblaðinu og að hann hefji störf í dag. Gísli Freyr hefur áður starfað sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu um tíma en hætti til að gerast aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þegar hún varð innanríkisráðherra 2013. Gísli Freyr hætti endanlega í því starfi í nóvember 2014 eftir að hafa játað að hafa lekið trúnaðarupplýsingum um hælisleitanda úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla ári áður. Fyrir það fékk Gísli Freyr átta mánaða skilorðsbundinn dóm.
Frá 2017 hefur hann starfað hjá KOM almannatengslum sem ráðgjafi, verið ritstjóri tímaritsins Þjóðmála og haft umsjón með hlaðvarpsþætti samnefndum tímaritinu. Gísli Freyr tók við ritstjórn Þjóðmála árið 2017 þegar fyrrverandi ritstjóri þess, Óli Björn Kárason, settist á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Í frétt mbl.is segir að fram að kosningum verði Dagmál með „umfangsmikla umfjöllun um fjölda sveitarfélaga og flestir þeirra þátta verða undir sameiginlegri stjórn Stefáns Einars og Andrésar Magnússonar, líkt og fyrir alþingiskosningar í fyrra.“
Eigendur með tengsl við sjávarútveg og stjórnmál
Ritstjórar Morgunblaðsins eru Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen sem hafa haldið um stjórnartaumanna frá haustið 2009. Blaðið er í eigu útgáfufélagsins Árvakurs sem heldur einnig úti mbl.is og útvarpsstöðinni K100.
Í janúar sögðust alls 19,1 prósent landsmanna lesa blaðið, en vert er að taka það fram að Morgunblaðið er fríblað einu sinni í viku, á fimmtudögum, þegar það er í svokallaðri aldreifingu. Þá fær fjöldi manns sem er ekki áskrifandi blaðið óumbeðið inn um lúguna hjá sér. Lestur Morgunblaðsins hjá öllum aldurshópum hefur rúmlega helmingast frá vorinu 2009, þegar hann var 40 prósent.
Samdrátturinn er mestur í aldurshópnum 18-49 ára. Þar segjast tíu prósent landsmanna lesa Morgunblaðið. í byrjun árs 2009, þegar nýir eigendur komu að rekstri blaðsins sem réðu svo núverandi ritstjóra var Morgunblaðið lesið af þriðjungi allra landsmanna á þessum aldri.