Til stendur að kynna afrakstur stefnumótunarvinna á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Samtaka ferðaþjónustunnar, sem staðið hefur yfir undanfarna mánuði, næstkomandi þriðjudag. Þetta kemur fram í grein sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, skrifa saman í Fréttablaðið í dag. Í greininni segir einnig að um sé að ræða stefnu sem mörkuð hefur verið um "uppbyggingu og þróun ferðaþjónustunnar á næstu árum og áratugum".
Í greininni kemur fram að fundir hafi verið haldnir hringinn í kringum landið vegna vinnunar og telja greinarhöfundar að um þúsund manns hafi tekið þátt í stefnumótuninni með einhverjum hætti.
Stjórnvöld hafa verið harðlega gagnrýnd á undanförnum árum fyrir að bregðast ekki við auknum ferðamannastraumi með styrkingu innviða. Þar hefur margt verið talið til, meðal annars fjárfesting í uppbyggingu og vernd fjölsóttustu ferðamannastaða. Ragnheiður Elín lagði á síðasta þingi fram frumvarp um svokallaðan náttúrupassa, sem fjármagna ætti innviðauppbyggingu í ferðaþjónustu. Frumvarpið hlaut ekki hljómgrunn, hvorki hjá stjórnarandstöðu né mörgum stjórnarliðum.
Ferðamönnum sem heimsækja Ísland hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Í fyrra voru þeir tæplgea ein milljón, í ár er búist við að þeir verða 1,3 milljónir og á næsta ári 1,5 milljónir. Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, gangrýndi stjórnvöld harkalega fyrir seinagang í fjárfestingu innviða og ferðaþjónustu í viðtali við Morgunblaðið í liðinni viku. Þar sagði hann sein viðbrögð stjórnvalda kosta 100 til 200 milljarða króna í tapaðar tekjur fyrir þjóðarbúið.
Miklar áskoranir fylgja vexti
Í grein Ragnheiðar Elínar og Gríms er tiltekið að aukning í ferðaþjónustu hafi haft í för með sér margvíslegan ávinning en um leið áskoranir fyrir íslenskt samfélag. "Ferðaþjónustan hefur á örfáum árum vaxið í það að vera sú atvinnugrein sem skapar mestar gjaldeyristekjur og um allt land hefur sprottið upp blómleg atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu. Það er ekki að ástæðulausu að margir segja að uppgangur ferðaþjónustunnar marki straumhvörf í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni.
En á sama tíma hefur álag á náttúruna aukist og uppbygging á ýmiss konar innviðum ekki náð að halda í við þessa öru þróun. Þar þurfum við að gera betur og breyta verklagi. Eitt það mikilvægasta sem við getum gert er að auka samhæfingu innan stjórnsýslunnar og efla samvinnu milli hans opinbera og greinarinnar sjálfrar."
Afrakstur stefnumótunarvinnu sem miðar að þessari samhæfingu og samvinnu verður kynntur á þriðjudag.