Samkvæmt frumvarpi Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra stendur til að það styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla sem verið hefur við lýði frá því í fyrra verði framlengt til tveggja ára.
Þetta er samkvæmt heimildum Kjarnans breyting frá því sem ákveðið var á ríkisstjórnarfundi fyrr í vikunni, þar sem málið var afgreitt eftir nokkrar deilur.
Eftir þann fund var stefnt að framlagningu frumvarps sem gilti bara til eins árs, eða út árið 2023, eins og Kjarninn sagði frá í gær.
Frumvarp Lilju um málið var lagt fram á Alþingi í dag, en samkvæmt því verður gildistími ákvæða um stuðning við einkarekna fjölmiðla framlengdur til 1. janúar 2025. Í greinargerð með frumvarpinu segir að aðeins sé horft til þess að lengja gildistímann til tveggja ára, sökum þess að miklar breytingar séu í vændum á stuðningi við einkarekna fjölmiðla á hinum Norðurlöndunum og hafa eigi þær til hliðsjónar við mörkun stefnu til lengri tíma.
Í greinargerð með frumvarpinu segir einnig að við mat á stuðningi ársins 2021 megi greina að sá stuðningur sem einkareknir fjölmiðlar fengu hafi nýst afar vel.
„Stuðningur við einkarekna fjölmiðla hefur meðal annars gert sumum fjölmiðlum kleift að fjölga stöðugildum á ritstjórn, halda útgáfu óbreyttri, komið í veg fyrir frekara aðhald í rekstri og bætt aðstöðu blaðamanna, svo fátt eitt sé nefnt. Styrkþegar eru sammála um að styrkurinn hafi skipt miklu máli. Þrátt fyrir framangreint hefur komið fram gagnrýni um að stuðningskerfið sé ekki nægilega fyrirsjáanlegt en gildistími kafla laganna um stuðning við einkarekna fjölmiðla var einungis til tveggja ára,“ segir í greinargerðinni.
Þar er einnig fjallað um að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð standi miklar breytingar fyrir dyrum hvað þetta varðar, og að í þessum löndum virðist þróunin vera sú að auka fjármagn til úthlutunar en lækka þak einstakra styrkja.
„Þegar þetta er ritað hafa drög að frumvörpum þess efnis ekki verið birt. Í ljósi þess að gífurlega miklar breytingar eru í vændum á stuðningskerfum Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar og þeirrar miklu reynslu sem framangreind lönd hafa af fjölmiðlastyrkjum verður gildistími lagaákvæða samkvæmt frumvarpi þessu aðeins tvö ár, með það að markmiði að innan þess tíma verði lagt fram frumvarp til laga með gildistíma til fimm ára sem sé í takt við þróun annars staðar á Norðurlöndum. Þannig verði Ísland ekki eftirbátur hinna landanna er kemur að stuðningi við einkarekna fjölmiðla,“ segir í greinargerð með frumvarpinu frá ráðherra.
Lítill fyrirsjáanleiki gagnrýndur
Í umsögn um frumvarpsdrög sem lögð voru fram í samráðsgátt stjórnvalda gagnrýndi Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins og tengdra miðla, meðal annars að stuttur gildistími styrkjakerfisins drægi úr fyrirsjáanleika í rekstri fjölmiðla.
„Þá er þetta sérstaklega óheppilegt þegar um er að ræða ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla því að með skömmum gildistíma eru þessi mál til stöðugrar umfjöllunar sem getur sett frjálsa fjölmiðla í óheppilega stöðu gagnvart stjórnvöldum, sen hafa verður í huga að meðal mikilvægra hlutverka frjálsra fjölmiðla er að veita stjórnvöldum aðhald,“ sagði í umsögn Árvakurs.
Gert er ráð fyrir því árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna styrkjanna til einkarekinna fjölmiðla verði allt að 400 milljónir króna.
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir skilyrði fyrir rekstrarstyrk úr ríkissjóði.