Drög að frumvarpi sem rýmkar verulega heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er lagt til að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum verði færð úr 50 í 65 prósent í fimmtán jafn stórum skrefum frá árinu 2024 til 2038.
Í lok janúar síðastliðins átti íslenska lífeyrissjóðakerfið erlendar eignir sem metnar voru á 2.244 milljarða króna. Þær voru 34,3 prósent allra eigna sjóðanna og hafa tvöfaldast í krónum talið á rúmum þremur árum.
Lífeyrissjóðir landsins hafa þrýst mjög á að heimildirnar verði hækkaðar þar sem margir sjóðir eru komnir ansi nálægt hámarkshlutfallinu nú þegar. Viðbúnar sveiflur á gengi íslensku krónunnar gera það að verkum að sjóðir geta tæplega farið mikið yfir 45 prósent hverju sinni.
Í erindi Agna var því velt upp hvort það ætti yfirhöfuð að hafa tiltekið hámark á erlendum eignum íslenskra lífeyrissjóða. Í mörgum grannríkjum sé ekki kveðið á um neitt hámark á erlendum eignum lífeyrissjóða, til dæmis í Danmörku, Noregi, Belgíu, Írlandi og Hollandi.
Komið í veg fyrir að gengisþróun þrýsti sjóðum í að selja
Í frumvarpsdrögunum sem birt voru í samráðsgáttinni í dag er einnig lagt til að lífeyrissjóðir þurfi að lágmarki að eiga eignir í sama gjaldmiðli og væntar lífeyrisgreiðslur þeirra til næstu þriggja ára.
Auk þess er þar að finna tillögu um að hámark gjaldeyrisáhættu verði eingöngu bindandi á viðskiptadegi fjárfestingar. Það hefur í för með sér að ef gengisþróun eða verðþróun á mörkuðum leiðir til þess að erlendar eignir lífeyrissjóða fara umfram hámarkið verður sjóðum ekki gert að selja eignir til þess að komast niður fyrir hámarkið líkt og nú er. Það hefur í för með sér að ef gengisþróun eða verðþróun á mörkuðum leiðir til þess að erlendar eignir lífeyrissjóða fara umfram hámarkið verður sjóðum ekki gert að selja eignir til þess að komast niður fyrir hámarkið líkt og nú er.
Í frumvarpinu er líka að finna tillögu sem varðar afleiðuviðskipti lífeyrissjóða sem eiga að auka möguleika þeirra til að nýta afleiður til gjaldeyrisvarna.
Að lokum er þar lögð til sú meginregla að lífeyrissjóðir birti sjóðfélögum yfirlit og upplýsingar með rafrænum hætti á vefsvæði sem krefst rafrænnar auðkenningar sjóðfélaga. Sjóðfélagar geti þó áfram óskað eftir því að fá send gögn og upplýsingar þeim að kostnaðarlausu.