Enab Baladi er neðanjarðarfjölmiðill í Sýrlandi sem var stofnaður þegar stríðið hófst þar í landi. Erlendum fjölmiðlum og hjálparstarfsmönnum hefur að mestu verið bannað að vera í Sýrlandi og eiga á hættu að vera teknir af lífi. Alþjóðlegir fjölmiðlar hafa því flestir haldið fréttariturum sínum á landamærunum við Sýrland. Það hefur því verið mjög erfitt að fá sannar fréttir af því sem gerist í borgarastríðinu í Sýrlandi.
Til að bregðast við þessu ákvað hópur aðgerðasinna sem hafði kynnst í mótmælum gegn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, að stofna neðanjarðarblað til þess að halda Sýrlendingum og öðrum upplýstum um stríðsglæpi allra þeirra sem berjast í stríðinu.
Nú er svo komið að um tuttugu manna hópur segir frá því sem gerist á stríðshrjáðum svæðum víðs vegar um landið. Allir skrifa undir dulnefnum og nota hugbúnað til að fela IP-tölur tölvanna.
Meirihluti starfsmanna blaðsins eru konur, sem er mjög sérstakt, enda nánast engar konur í ríkisstjórn eða í stjórnum uppreisnarhópa. Íslamska ríkið stjórnar hluta landsins og þar eru réttindi kvenna mjög fótum troðin. Það er þó ekki einsdæmi því konur hafa verið mjög áberandi í litlum útgáfum sem þessum. Að sögn eins karlkyns starfsmanna blaðsins, Jawad Sharbaji, eiga konur auðveldari aðgang að heimilum fólks og auðveldara með að ferðast um landið en karlar.
Yfir 370 þúsund manns fylgjast nú með Enab Baladi á Facebook og búið er að koma upp vefsíðu sem fær 200 þúsund heimsóknir á mánuði. Til að byrja með þurftu konur að dreifa blaðinu í skjóli nætur til þess að koma því á framfæri. Það er raunar ennþá gert, blaðið er prentað í sjö þúsund eintökum tvisvar í mánuði. Prentunin fer fram í Tyrklandi þar sem meirihluta blaðanna er nú dreift, en um tvö þúsund eintökum er smyglað inn í Sýrland.
People can be amazing, in the hardest of circumstances http://t.co/bteHny4yXw #EnabBaladi #women #Syria #journalism pic.twitter.com/WQC7QaXbwp
— gillo ballybay (@gilloballybay) May 10, 2015
Þrír ritstjórar myrtir
Kholoud Waleed, einn stofnenda fjölmiðilsins og fréttaritstjóri, hefur nú tjáð sig um útgáfuna í fjölmiðlum undir dulnefni. Sjá má myndband með viðtali við hana hér að neðan, og hún er í viðtali í nýjustu útgáfu tímaritsins Elle. „Við erum stelpugengið. Assad myndi drepa okkur, en hann finnur okkur ekki,“ segir hún meðal annars í viðtali við blaðið.
Hún flúði frá heimaborg sinni Darayya sumarið 2012, þegar einhver verstu fjöldamorð stríðsins fóru þar fram. Fregnir herma að útgönguleiðum úr borginni hafi verið lokað áður en eldflaugaárásir hófust þar. Í kjölfarið hafi svo hermenn gengið hús úr húsi og skotið fólk til bana.
Waleed flúði þá ásamt fjölskyldu sinni, og það var í eina skiptið sem útgáfa af Enab Baladi kom ekki út. Um leið og fjöldamorðunum var lokið fór starfsfólk blaðsins að segja frá því sem gerst hafði. En eftir því sem blaðið hefur vakið meiri athygli varð hættan meiri. Þrír karlar sem höfðu verið ritstjórar á blaðinu voru myrtir. Nokkrar konur voru teknar fastar og sakaðar um að vinna fyrir blaðið, en alls hafa átta starfsmenn verið handteknir og pyntaðir. Þá ákvað Waleed að flýja burt úr landinu, og nú er hún í flóttamannabúðum í Tyrklandi, þaðan sem hún ritstýrir fréttum blaðinu.