Indland verður líklegast fjölmennasta land heims árið 2022, samkvæmt nýrri mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna. Fyrri spár gerðu ráð fyrir að mannfjöldinn á Indlandi myndi taka fram úr mannfjölda í Kína árið 2028. Löndin tvö eru þau fjölmennustu í heiminum. Íbúafjöldi í Kína er í dag um 1,38 milljarður en 1,31 milljarður á Indlandi býr á Indlandi.
Í umfjöllun New York Times um málið segir að þótt lýðfræðingar hafi lengi vitað að Indland myndi taka fram úr Kína, þá bjuggust þeir ekki við að það myndi gerast svo fljótt. Búist er við að eftir sjö ár verði 1,4 milljarður manna í báðum löndunum. Þá muni Indland taka fram úr og því er spáð að íbúafjöldinn verði 1,5 milljarður árið 2030 og 1,7 milljarður árið 2050. Búist er við að mannfjöldinn verði stöðugri í Kína en dragist lítillega saman frá 2030.
Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna er íbúafjöldi heimsins í dag 7,3 milljarðar. Því er spáð að mannfólkið verði 9,7 milljarðar talsins árið 2050, lítillega fleiri en gert var ráð fyrir í síðustu mannfjöldaspá frá 2013. Mannfjöldinn gæti orðið 11,2 milljarða fyrir lok aldarinnar. Helmingur fjölgunarinnar mun eiga sér stað í aðeins níu löndum, gangi spáin eftir. Þau eru Indland, Nígería, Pakistan, Kongó, Eþíópía, Tansanía, Bandaríkín, Indónesía og Úganda. Í nokkrum ríkjum Evrópu er spáð yfir 15 prósent fólksfækkun til 2050.
Fram kemur í skýrslunni að lífslíkur hafi aukist verulega á síðustu árum. Alþjóðlega mælast lífslíkur karlmanna 68 ár og lífslíkur kvenna er 73 ár. Það er þremur og fjórum árum lengur en um aldamótin. Ísland er í hópi þeirra landa þar sem lífslíkur eru hvað lengstar.