Stjórn og stjórnendur Haga stefna að því að greiða hluthöfum félagsins árlegan arð sem nemur að lágmarki helmingi af hagnaði liðins rekstrarárs. Fyrir aðalfund félagsins á fimmtudag næstkomandi liggur tillaga um greiðslu arðs sem nemur alls 1.992 milljónum króna. Upphæðin nemur um 52 prósentum af rúmlega 3,8 milljarða króna hagnaði síðasta rekstrarárs. Rekstrarár félagsins nær frá 1. mars 2014 til 28. febrúar 2015.
Þetta kemur fram í ávarpi Kristínar Friðgeirsdóttur, stjórnarformanni Haga, í ársskýrslu félagsins sem birt var í dag. Kristín segir í ávarpinu að með þessari stefnu félagsins og árangri þess hafi hlutabréf í Högum verið ákjósanlegur fjárfestingarkostur á markaði, jafnvel fyrir almenning. „Með þeirri áherslubreytingu sem nú er kynnt í arðgreiðslustefnu vonast stjórnin eftir fjölgun hluthafa í framtíðinni. Eitt af markmiðum breyttrar arðgreiðslustefnu er áframhaldandi góð arðsemi eigin fjár. Arðsemi eigin fjár félagsins undanfarin ár hefur verið einstaklega góð en þrátt fyrir lækkun á milli ára var hún 28,6% á síðasta rekstrarári,“ segir Kristín. Hluthafar Haga voru 1.124 í lok febrúar 2015.
Fjöldi hluthafa Haga í lok febrúar 2015. Tafla úr ársskýrslu Haga.
Hlutabréfaverð í Högum sveiflaðist á bilinu 40 krónur á hlut til 46 króna á hlut á rekstrarárinu. Það er í dag um 40 krónur á hlut. Myndin hér að neðan sýnir gengi hlutabréfa félagsins frá marsmánuði 2014 til dagsins í dag.
Samkeppnin eykst
Kristín segir að stjórnin undirbúi nú félagið undir aukna samkeppni. Finnur Árnason, forstjóri Haga, talar einnig um aukna samkeppni framundan í ávarpi sínu og auknar kröfur viðskiptavina. „Framundan er aukin samkeppni á markaði og breytt rekstrarumhverfi. Auknar kröfur viðskiptavina snúa að hollustu, þægindum, vöruúrvali, upplýsingum um vörur, s.s. upprunamerkingar og innihaldsmerkingar, verðlagi og þjónustu á sama tíma og net- og tæknivæðing eykur vægi sitt í verslun. Sem fyrr er við skiptavinurinn í öndvegi hjá okkur. Við hlustum á óskir hans og reynum okkar besta við að uppfylla þær. Viðskiptavinur
okkar á fjölmarga valkosti og ef við ætlum að fá hann til að halda áfram að eiga við okkur viðskipti þá þurfum við að gera betur en keppinautar okkar. Það ætlum við að gera,“ segir hann.
Þótt hvorki Kristín né Finnur minnist sérstaklega á komu bandarísku verslunarkeðjunnar Costco til landsins í samhengi við aukna samkeppni, þá má telja víst að opnun verslunar Costco sé meðal þeirra samkeppnisaukandi atriða sem átt er við.