„Stjórn Ríkisútvarpsins beinir þeirri eindregnu áskorun til Alþingis að það standi vörð um Ríkisútvarpið með því að falla frá fyrirhugaðri lækkun á útvarpsgjaldi.“ Svo hljóðar niðurlag áskorunar stjórnar RÚV til Alþingis, en áskorunin hefur verið send fjölmiðlum og þingmönnum.
Þar segir að á undanförnum árum hafi framlög til RÚV verið ítrekað skorin niður, samhliða hafi verið hagrætt mikið í starfsemi RÚV og dregið úr þjónustu. Samkvæmt sjálfstæðri úttekt á fjármálum félagsins, sem stjórn RÚV og nýir stjórnendur létu framkvæma síðastliðið vor, sé félagið yfirskuldsett og stærstur hluti skuldanna séu gamlar lífeyrissjóðsskuldbindingar. Þá blasi við að tekjur dugi ekki fyrir þeirri þjónustu sem félagið veiti í samræmi við útvarpslög og þjónustusamning milli Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins.
Óskert og óbreytt útvarpsgjald myndi standa undir rekstri RÚV
Stjórn RÚV mótmælir harðlega áformum stjórnvalda um að lækka útvarpsgjaldið, og segir að óbreytt og óskert útvarpsgjald myndi standa undir rekstri félagsins til framtíðar. Samhliða óskum RÚV um að fá útvarpsgjaldið óskert í sinn hlut, hefur stjórn RÚV og nýir stjórnendur unnið að sölu útvarpshússins við Efstaleiti og lóðar félagsins við húsið. Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, hefur sagt í samtali við Kjarnann að vonast sé til að eignasalan, fáist ásættanlegt verð fyrir, muni leysa uppsafnaðan skuldavanda félagsins.
Þá segir í áskorun stjórnar RÚV: „Nú stendur til að útvarpsgjaldið lækki um áramótin úr 19.400 kr niður í 17.800 kr og svo að útvarpsgjaldið lækki aftur að ári niður í 16.400 kr. Gangi þessar fyrirætlanir eftir blasir við stórfelld breyting á hlutverki, þjónustu og starfsemi Ríkisútvarpsins með stórtækari niðurskurðaraðgerðum en áður hafa sést hjá félaginu. Augljóst má vera að sú þjónusta sem Ríkisútvarpið veitir tæki stakkaskiptum við þessa breytingu með samdrætti á öllum sviðum. Þá er ljóst að áætlanir um úrbætur á tilteknum þáttum í starfseminni eru óframkvæmanlegar en nýir stjórnendur og stjórn hafa hug á að efla þjónustu við landsbyggðina, bjarga efni í Gullkistu Ríkisútvarpsins og gera aðgengilegt þjóðinni, efla framboð á vönduðu barnaefni á íslensku, leggja aukna áherslu á innlenda framleiðslu og bæta dreifikerfið um land allt.“
Þá undirstrikar stjórn RÚV mikilvægi félagsins sem ein mikilvægasta menningar- og lýðræðisstofnun þjóðarinnar. „Ef það er vilji Alþingis að gjörbreyta hlutverki Ríkisútvarpsins og skyldum, þá er eðlilegt að fram fari umræða og þá með tilheyrandi breytingum á útvarpslögum áður en tekin er ákvörðun um að lækka útvarpsgjald.“