Stjórn og eigendur Strætó, það er sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarneskaupstaður, ætla að funda í hádeginu til að fara yfir atvikið sem kom upp í gær þegar átján ára þroskaskert stúlka gleymdist í bíl Ferðaþjónustu fatlaðra í sex klukkustundir.
Þar stendur til að skipa bráðabirgðastjórn yfir Ferðaþjónustu fatlaðra undir formennsku Stefáns Eiríkssonar, sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Þetta var ákveðið á fundi í morgun, sem Dagur B. Eggertsson boðaði til, en hann sátu meðal annars oddvitar stjórnmálaflokkanna í borgarstjórn ásamt formanni og varaformanni stjórnar Strætó.
„Atburðir gærdagsins hjá ferðaþjónustu fatlaðra eru litnir grafalvarlegum augum hjá aðildarsveitarfélögum Strætó,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við Kjarnann.
Biður fjölskyldu Ólafar afsökunar
„Þetta er hræðilegt atvik og bara óskiljanlegt að þetta skyldi hafa komið upp og ég vil biðja fjölskyldu Ólafar og hana sjálfa innilega afsökunar,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og varaformaður stjórnar Strætó í samtali við Kjarnann. „Nú verður farið yfir alla verkferla, skoðað hvernig þetta gat komið upp og komið í veg fyrir að þetta geti gerst aftur. Svo verður skoðað hvort brotalömin sem virðist vera í Ferðaþjónustu fatlaðra sé slík að hún kalli á róttækar aðgerðir.“
Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar, sagði í fréttum RÚV í morgun að sveitarstjórnir hafi ekki hlustað á viðvaranir fyrir áramót um að breytingar á ferðaþjónustu fatlaðra væru ekki nógu vel undirbúnar. „Við getum öll sagt að það fór greinilega eitthvað úrskeiðis við innleiðingu á þessum breytingum, en það hefur verið mikið álag á starfsfólk og ég finn líka til með bílstjóranum. Þetta er hræðilegt óhapp. Við þurfum núna að bregðast við og leggjast í naflaskoðun og gera allt sem hægt er til að bæta úr því ástandi sem hefur skapast og tryggja að þjónustan sé góð fyrir alla og þetta sé viðunandi starfsumhverfi fyrir starfsfólkið okkar og að við rekum ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu sem við getum verið stolt af. Annað er óásættanlegt,“ segir Kristín Soffía.
Stjórnin ætlar ekki að stíga til hliðar
Hún segir það ekki hafa komið til tals innan stjórnarinnar að hún axli ábyrgð á atvikinu með því að stíga til hliðar. „Það hefur ekki verið rætt að við förum frá, enda held ég að það væri ekki endilega það besta í stöðunni. Það kom ný stjórn inn í sumar, en þá var vinna við breytingar á ferðaþjónustunni komin af stað. Við lentum í að þurfa að skipta um framkvæmdastjóra á svipuðum tíma og ég held að það sé bara nauðsynlegt núna að nú sé fólk í vinnu við að leysa þetta frekar en að við förum í burtu.“