Stjórnarandstaðan gagnrýndi harðlega vinnubrögð meirihlutans á Alþingi í dag undir liðnum fundarstjórn forseta en þingfundur hófst í morgun klukkan 10:30.
Rétt eftir að kosið var í nefndir í gær fengu þingmenn þær upplýsingar að fjárlagafrumvarpinu hefði verið vísað til umsagnaraðila – án þess að fjármálanefnd hefði tekið til starfa. Ekki hefði verið boðað til funda og þar af leiðandi hefði nefndin meðal annars ekki getað ákveðið umsagnartíma og hverjum biðist að senda inn umsagnir.
Formaður og varaformaður fjárlaganefndar báðust afsökunar á mistökum sínum en fjörugar umræður sköpuðust á þingi í morgun um málið.
Eðlilegt að nefndin komi saman áður
Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar bað forseta Alþingis, Birgi Ármannsson, vinsamlegast um að fara fram á það við fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna á Alþingi að þeir sýndu „þessari merku stofnun snefil af virðingu í störfum sínum“.
„Það er ekki í boði að hefja störf Alþingis með þeim hætti að virða hér reglur að vettugi. Það er engin heimild fyrir því að senda út beiðni um umsagnir jafnvel áður en mál er flutt í þingsal. Það er nefndin sem ákveður það í sameiningu. Í þessu tilviki hefur háttvirt fjárlaganefnd ekki verið kölluð saman og það er forkastanlegt að sá aðili sem stýrir þar hafi óskað eftir því, ef svo hefur verið, að umsagnarbeiðnir væru sendar út héðan úr húsi klukkan fjögur í gær,“ sagði hún.
Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata sagðist taka undir áhyggjur varðandi þessi vinnubrögð. „Ég velti því fyrir mér: Var það fyrsta embættisverk nýs formanns fjárlaganefndar að kalla eftir umsögnum um mál sem ekki er búið að mæla fyrir, án þess að kalla nefndarmenn saman? Ég veit ekki betur en að það sé eðlilegt að nefndin sé kölluð saman og þar fari meira að segja fram umræða um hversu langur frestur eigi að vera til að skila umsögnum og öðru. Þetta þykir mér stórfurðulegt, og mér þykir þetta líka vera merki um — þetta er bara einn hluti af svo mörgum, þetta er eitt púsl af svo mörgum púslum sem sýnir ákveðna mynd sem mér finnst dálítið varhugaverð hvað það varðar að grafa undan þingræðinu.
Er þetta einhvers konar blinda hjá stjórninni? Átta þau sig ekki á því hvernig þau koma fram? Hér er verið að grafa undan aðhaldsgetu stjórnarandstöðunnar. Verið er að grafa undan þingræðinu með svona skrefum. Mér finnst að forseti eigi að taka þetta fyrir og biðja formann fjárlaganefndar koma sérstaklega hingað upp og gera grein fyrir þessari ákvörðun sinni. Hvar stendur í reglum þingsins að þetta megi?“ spurði hún.
Ekki þannig að „sigurvegari taki allt“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sagði að þessi vinnubrögð væru ekki samkvæmt þingræðinu og reglum þingsins.
„Myndin sem er að teiknast upp — ég man ekki eftir því, og var hér starfsaldursforseti í einhvern tíma, að það hafi verið þannig á síðustu 20 árum að skipað hafi verið í nefndir með afli meirihluta eins og nú er verið að gera. Það eru ákveðin skilaboð. Það eru ákveðin skilaboð sem verið er að senda með þessum vinnubrögðum núna inn í þingið. Mér finnst miður hvernig ríkisstjórnin byrjar þetta en ekki síst að það er verið að setja sérstakt álag á núverandi virðulegan forseta í því hvernig eigi að bregðast við. Ég vil hvetja hæstvirtan forseta til að taka þessu alvarlega, beina því í þann farveg að virðing Alþingis verði sem mest og við fáum að virkja eftirlitshlutverk okkar sem skyldi með framkvæmdarvaldinu.“
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagðist hafa kosið í gær að líta á það sem „sakleysisleg mistök hjá forseta að hann skyldi ná að klúðra sætavalinu“.
„Ég kaus hann og geri ráð fyrir að hann muni starfa fyrir okkur öll hér í þinginu. Við hér í Norðvestur-Evrópu að minnsta kosti höfum yfirleitt litið á lýðræði talsvert öðrum augum en mörg önnur ríki, það er við virðum í rauninni minnihluta líka. Það er ekki þannig að sigurvegari taki allt og eigi allt og megi allt. Það er alla vega ný hugmynd um íslenskt lýðræði. Hér skiptir þess vegna máli að forseti stigi inn og tryggi það að núna og í framtíðinni þá hafi minnihlutinn, sem hefur 40 og eitthvað prósent þjóðarinnar á bak við sig, að minnsta kosti þann rétt sem honum ber,“ sagði hann.
„Mér var tjáð að þetta væri venja“
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG og formaður fjárlaganefndar, kom í pontu og baðst afsökunar á mistökum sínum og sagðist taka þau á sig.
„Mér var tjáð að þetta væri venja og hefði verið í áratugi varðandi umsagnarferli fjárlaganefndar og síðan hefði það verið tekið fyrir á fyrsta fundi hennar hvort bæta ætti við o.s.frv. En það er alveg rétt að þetta er ekki samkvæmt prótókollinum. En þetta hefur, eins og ég segi, verið gert mjög lengi og ég taldi mig bara vera að halda áfram því sem gert hefur verið. En ég játa að það eru mistök og það eru mín mistök og ég vona svo sannarlega að við náum saman um það í fjárlaganefnd að vinna vel saman þrátt fyrir að þetta byrji ekki vel af minni hálfu,“ sagði hún.
Flestir þingmenn tóku afsökunarbeiðnina gilda í umræðunum í framhaldinu. Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins sagði að nú væri komin skýring á þessu „stórfurðulega máli“.
„Það hlýtur að setja spurningarmerki við og hlýtur að teljast undarlegt þegar maður er ekki búinn að kynna sér fjármálaáætlunina almennilega, hefur varla komist í það, þegar jafnvel umsagnaraðilar úti í bæ eru byrjaðir að vinna í því máli. Ég held að þetta séu vinnubrögð sem við getum ekki leyft okkur. Við verðum að fara að sýna Alþingi virðingu. Við tölum um að við viljum hafa virðingu fyrir Alþingi, en á meðan svona vinnubrögð eru til staðar þá er sú virðing ekki til staðar. Við verðum að fara að breyta vinnubrögðunum hér,“ sagði hann.
Valdníðslu af hálfu hinnar nýju ríkisstjórnar
Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar sagði að lögin væru mjög skýr – svona ætti ekki að gera hlutina. „Það er fyrst eftir að nefnd hefur fengið mál til umfjöllunar sem þessi ákvörðun er tekin. Og nefnd fær mál til umfjöllunar þegar það hefur verið rætt hér á þingi. Gárungarnir segja að nú leiti spunameistarar logandi ljósi að heiti á þessa nýju ríkisstjórn. Ég er ekkert viss um að þeir séu hrifnir af því heiti sem virðist vera að festast, og það er ríkisstjórn hinna ýmsu annmarka á framkvæmd á lögum. En hér hefur háttvirtur formaður fjárlaganefndar komið upp, lýst yfir vanþekkingu sinni á meðferð, sem mér þykir reyndar býsna sérkennilegt í ljósi starfsaldurs.
En gott og vel, sú afsökunarbeiðni er tekin til greina, samþykkt, sannarlega, að sjálfsögðu. En vonandi verður hér lát á því sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem valdníðslu af hálfu hinnar nýju ríkisstjórnar, sem seint verður sagt að fari vel af stað,“ sagði hún.
Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði að þetta byrjaði ekki vel og að hún hefði áhyggjur af þessari byrjun í því langhlaupi sem eitt kjörtímabil er.
„Ég tek afsökunarbeiðni nýs formanns fjárlaganefndar gilda en upphaf þessa kjörtímabils og upphaf þingstarfsins hér einkennist af fautaskap. Ég er enn að jafna mig eftir að hafa upplifað hér og fylgst með hvernig meirihlutinn ákvað að ganga í það að skipa í nefndir og fara alla leið í meirihlutavaldi sínu. Það hefur ekki gerst á hinu háa Alþingi frá því á síðustu öld, forseti.
Ég biðla til nýs forseta Alþingis að sjá til þess að hér verði starfað af fullri virðingu og heilindum í samstarfi meirihluta og minnihluta og að gætt verði að virðingu Alþingis og að hún bíði ekki varanlega hnekki vegna upphafs þessa kjörtímabils,“ sagði Þórunn.
„Svolítið ankannalegt“ að þurfa alltaf að kalla saman fund nefndar
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd, tjáði sig um málið og sagði að hún hlakkaði mikið til að starfa með formanni fjárlaganefndar og öllum þeim þingmönnum sem eiga sæti með henni í þeirri nefnd.
„Við vitum öll hvað klukkan slær, það er 2. desember og fjárlög koma fram á hverju ári og það er alveg rétt að þau þarf að samþykkja fyrir áramót. Háttvirtur þingmaður og formaður fjárlaganefndar kom hér upp og baðst afsökunar á því að frumvarpið hefði farið í umsagnarferli og ég tek þá afsökunarbeiðni gilda.
Mig langar engu að síður að koma inn á það, því að hér er verið að ræða um virðingu Alþingis, að ég sat í háttvirtri efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili þar sem við samþykktum það einmitt, sem er tekið fram í reglunum að má gera, að heimila formanni þeirrar nefndar að senda út umsagnarbeiðnir. Ég á starfsreynslu á öðrum vettvangi en í þinginu og ég verð að viðurkenna, þegar við erum að velta fyrir okkur svona formfestu og virðingu og annað, að mér fannst það svolítið ankannalegt að alltaf þyrfti að kalla saman fund til að senda kannski á aðila sem hvort sem er voru farnir að fylgjast með málinu og fjalla um það. Ég vil því hvetja til þess að við ræðum það í nefndunum hvort við viljum hafa verklagið með þeim hætti að alltaf þurfi að kalla saman nefndarfund til að senda út umsagnarbeiðnir. Ef það er vilji nefndarmanna þá verður það að sjálfsögðu þannig enda gera reglurnar ráð fyrir því,“ sagði hún.
Ekki í boði að fara á svig við reglur þingsins til að „komast heim í jólasteikina“
Margir stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýndu þessi orð Bryndísar en meðal þeirra var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata. Hún sagðist þurfa að útskýra fyrir Bryndísi hvers vegna þessar reglur væru eins og þær eru.
„Þegar nefndir koma saman ákveða þær hversu langur umsagnarfresturinn skal vera og hverjum býðst að senda inn umsagnir. Þetta er eitthvað sem nefndin ákveður í sameiningu. Þess vegna þarf nefndin að koma saman til þess að gera þetta, vegna þess að það er ekki bara meirihlutans að ákveða hverjir hafa eitthvað um fjárlög ríkisins að segja. Það er ekki bara meirihlutans að hafa eitthvað um það að segja hversu langan tíma þetta sama fólk hefur, meira að segja þó að það sé þægilegt akkúrat núna af því að það er svo stutt til jóla og við viljum nú öll komast í jólahlé, er það ekki? Það er samt ekki í boði að fara á svig við reglur þingsins til að komast heim í jólasteikina,“ sagði þingmaðurinn.
Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar lagði orð í belg og sagði að hann væri vitorðsmaður með formanninum og baðst afsökunar á hlut sínum í málinu.
„En ég vil bara segja hér í þessum ræðustól að auðvitað er þetta réttmæt gagnrýni. Auðvitað er það þannig að nefndin heldur ekki á málinu. Það er ekki komið til nefndarinnar og það er nefndarinnar að ákveða umsagnaraðila og umsagnarfrest. Það mun nefndin gera. Við þessar aðstæður þá var einfaldlega rætt á fundi með nefndarritara að vekja athygli á að fjárlagafrumvarpið væri komið fram. Það er mikið verk að gefa góða umsögn um fjárlagafrumvarpið. Gagnrýni stjórnarandstöðunnar hér er réttmæt, ég heyri hana og við virðum þau sjónarmið sem hafa komið fram. Þegar málið kemur til nefndarinnar mun nefndin að sjálfsögðu funda um það hvaða umsagnaraðilar senda inn umsögn eða óskað er eftir og hvaða tímafrestur verði gefinn,“ sagði hann.
Lærdómur fyrir nefndarformenn og nefndarmenn alla
Nýr forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, tók til máls í lok umræðna og sagði að hann hefði heyrt þær athugasemdir sem komið hefðu fram af hálfu þingmanna vegna umsagnarbeiðni sem send var út af hálfu formanns fjárlaganefndar.
„Forseti áréttar að það er mikilvægt að nefndir fari eftir starfsreglum nefnda og ákvæðum þingskapa í störfum sínum og telur að þetta dæmi eigi að vera ákveðinn lærdómur fyrir nefndarformenn og nefndarmenn alla að haga vinnubrögðum í samræmi við starfsreglur og ákvæði þingskapa,“ sagði hann að lokum.