Orðspor Eimskips og íslensks réttarkerfis hefur skaðast vegna rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á meintum samkeppnisbrotum Eimskips og Samskipa sem staðið hefur yfir í eitt og hálft ár. Þetta segir Richard Winston Mark D´Abo, stjórnarformaður Eimskips, í ávarpi sínu til hluthafa í ársskýrslu félagsins sem birtist í síðustu viku. Hann segir að svo virðist sem Samkeppniseftirlitið sé hafið yfir lög. Hann situr í stjórn Eimskips fyrir hönd bandaríska sjóðsins Yucaipa, sem er stærsti einstaki eigandi félagsins.
Í ávarpinu rifjar D´Abo upp að Samkeppniseftirlitið hafi ráðist í húsleitir á skrifstofum Eimskips og Samskipa í september 2013. Eimskip hafi í kjölfarið ítrekað óskað eftir upplýsingum um hvers vegna ráðist hafi verið í aðgerðirnar en D´Abo segir eftirlitið hafa neitað að veita þær. Þrívegis hafi Eimskip farið með málið fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála sem hafi í öllum tilfellunum fellt úr gildi Samkeppniseftirlitsins um ap synja kröfu Eimskips um aðgang að gögnum málsins. „Eimskip veit enn ekki hvaða ástæður eru fyrir rannsókninni og mun áfram beita öllum lögfræðilegum aðgerðum til að verja sig gegn þessum ásökunum.“
Leki olli skaða
D´Abo fjallar einnig um leka á gögnum um rannsóknina til Kastljóss síðasta haust, en fréttaskýringarþátturinn hafði kæru Samkeppniseftirlitsins til embættis sérstaks saksóknara á hendur starfsmönnum Eimskips og Samskipa undir höndum þegar hann vann fréttaskýringu um rannsókn málsins. Eimskip hafa kært þennan leka til lögreglu.
Richard Winston Mark D´Abo, stjórnarformaður Eimskips.
Í kjölfar umfjöllunar Kastljóss, sem var sýnd 14. október 2014, setti Kauphöll Íslands hlutabréf Eimskips á athugunarlista þar sem í umfjölluninni komu fram upplýsingar sem voru verðmótandi, sérstaklega að Samkeppniseftirlitið hefði kært starfsmenn félaganna til sérstaks saksóknara. Virði félagsins lækkaði um þrjá milljarða króna næstu þrjá daganna eftir að umfjöllunin fór í loftið.
Samkeppniseftirlitið upplýsti stjórnendur Eimskips um það sumarið 2014 að starfsmenn þess hefðu verið kærðir til sérstaks saksóknara. Eimskip tilkynnti það hins vegar ekki sérstaklega til Kauphallar Íslands. Í frétt Kjarnans um málið, sem birtist 17. október 2014, var haft eftir Ólafi William Hand, upplýsingafulltrúa Eimskips, að félagið hafi tilkynnt um það í september 2013 að það væri til rannsóknar vegna meintra brota á tveimur greinum samkeppnislaga og að það feli „í sér að þáttur einstaklinga hlýtur að koma til skoðunar“. Félagið taldi því ekki að það hafi þurft að tilkynna sérstaklega um rannsókn sérstaks saksóknara.
Í ávarpi D´Abo segir að lekinn til Kastljóss sé enn í rannsókn hjá lögreglu og að fyrrum starfsmaður Samkeppniseftirlitsins sé grunaður um að hafa staðið fyrir honum. „Orðspor Eimskips og íslenska réttarkerfisins hefur skaðast. Það virðist sem Samkeppniseftirlitið sé hafið yfir lög og að stjórnvöld taki það ekki nógu alvarlega til að bregðast við óréttmætum aðgerðum þess.“