Halla Sigrún Hjartardóttir, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins (FME), hagnaðist um liðlega 830 milljónir króna þegar gengið var frá sölu á Skeljungi og færeyska olíufélaginu P/F Magn í lok árs 2013. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Í blaðinu kemur enn fremur fram að Halla Sigrún hafi neitað því að hafa átt í félaginu til þessa, en hún var skipuð formaður stjórnar FME í desember í fyrra.
Í blaðinu segir að félag í hennar eigu hafi farið með 22% eignarhlut í Heddu eignarhaldsfélagi. Það félag átti 66% hlut í P/F Magn og 25% hlut í Skeljungi. Samtals nam hagnaður Heddu af sölu á hlutunum 3,8 milljörðum árið 2013, samkvæmt frásögn blaðsins.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, sem vitnað er til í greininni, eignaðist Halla hlut í Heddu þegar hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson, sem áttu þá P/F Magn og Skeljung á Íslandi, seldu 66% hlut í félaginu.
Halla Sigrún Hjartardóttir stjórnarformaður FME.
Í Morgunblaðinu segir að, ásamt Höllu hafi Einar Örn Ólafsson, þáverandi forstjóri Skeljungs, og Kári Þór Guðjónsson, ráðgjafi og fyrrverandi samstarfsfélagi Höllu og Einars í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, keypt 22% hlut hvor um sig í félaginu. Við kaupin eignuðust þau meirihluta í P/F Magn.
Svanhildur og Guðmundur keyptu P/F Magn af þrotabúi Fons vorið 2009 og nam kaupverðið aðeins á þriðja hundrað milljónum, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Var félagið selt, ásamt Skeljungi, fyrir átta milljarða í árslok 2013.
Halla Sigrún var skipuð stjórnarformaður FME í desember í fyrra af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra. Hún hafði áður starfað hjá Straumi í tvö ár en starfslok hennar þar bar skyndilega að. Fullyrt var í fjölmiðlum að starfslokin hefðu verið tilkomin vegna þess að upp komst um fjárfestingar hennar í Skeljungi og P/F Magn. Halla neitaði því í samtali við DV og sagðist aðspurð að hún ætti ekkert í Skeljungi eða félögum sem tengjast olíufélaginu. „Ég vil ekki tjá mig um fjárfestingar mínar í fjölmiðlum […] Ég hef ekki átt nein viðskipti við Skeljung umfram það að kaupa bensín.“ Hún neitar því að komið hafi upp trúnaðarbrestur á milli hennar og Straums áður en hún lét af störfum hjá bankanum. „Nei, alls ekki.“ Halla Sigrún segist kannast við þessa „leiðinlegu kjaftasögu“ en segir að hún vilji ekki ræða málið í fjölmiðlum.