Stjórnarmaður hjá Landssamtökum skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum (NRA) kennir afstöðu prestsins í kirkjunni í Charlestone til almennrar byssueignar, um fjöldamorðið sem átti sér þar stað á miðvikudaginn. Margir helstu fréttamiðlar vestan hafs greina frá málinu, þeirra á meðal Quartz.
Hinn 21 árs Dylann Storm Roof hóf fyrirvaralaust skothríð í kirkjunni og myrti níu manns, en allir þeir sem féllu voru svartir og er ódæðið rakið til kynþáttahaturs. Samkvæmt frásögn vitna sagði Roof er hann endurhlóð byssuna sína meðan á hryðjuverkinu stóð: „Ég verð að gera þetta. Þið nauðgið konunum okkar og eruð að taka yfir landið okkar. Og þið verðið að fara.“
Segir prestinn eiga sinn þátt í sökinni
Roof er í haldi lögreglu og á yfir höfði sér dauðarefsingu verði hann fundinn sekur um hroðaverkið. Byssan sem Roof notaði til að fremja fjöldamorðið hafði hann keypt sér fyrir afmælispeninga frá fjölskyldu hans.Á meðal hinna myrtu var Clementa C. Pinckney, sem var prestur kirkjunnar umræddu og öldungadeildarþingmaður fyrir ríki Suður-Karólínu.
NRA hafa ekki sent frá sér neina formlega yfirlýsingu vegna skotárásarinnar, en stjórnarmaður hjá samtökunum, Charles Cotton, lét málið til sín taka á spjallþræði um skotvopn eftir voðaverkið. Þar sagði hann um prestinn sem var þá nýlátinn: „Hann kaus gegn vopnaburði. Átta sóknarbörn hans væru mögulega enn á lífi ef hann hefði ekki verið á móti því að leyfa fólki að hafa með sér skotvopn til kirkju. Saklaust fólk lét lífið vegna pólitískra skoðana hans.“
Pinckney hafði í tíð sinni sem öldungadeildarþingmaður talað fyrir strangari lagasetningum er varða hertari skilyrði til byssukaupa til handa almenningi. Þá kaus hann gegn lagafrumvarpi í Suður-Karólínu sem kvað á um leyfi til að bera vopn innanklæða á veitingastöðum sem veita áfengi. Samkvæmt lögum ríkisins er óheimilt að taka með sér skotvopn til kirkju.
Kunnuglegur málflutningur
Nokkrum klukkustundum áður en Cotton lét ummælin falla á áðurnefndum spjallþræði hafði Barack Obama Bandaríkjaforseti brugðist við myrkraverkinu með því að kalla enn á ný eftir hertari lögum til að hefta almenna útbreiðslu skotvopna í landinu.
Málflutningur Cotton um rétt fólks til sjálfsvarnar er keimlíkur þeim sem þrýstihópurinn, sem hann tilheyrir, hélt á lofti eftir að tuttugu börn voru skotin til bana árið 2012 í Sandy Hook grunnskólanum í Connecticut. Kannski væri ráð að vígbúast í skólum og kirkjum landsins til að geta tekið til varna.
Landssamtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum hafa hins vegar brugðist við ummælum stjórnarmannsins og sagt að hann tali ekki fyrir hönd samtakanna, heldur beri einn ábyrgð á orðum sínum. Þá hafa ummæli Cotton verið fjarlægð af áðurnefndum spjallþræði um byssueign í Bandaríkjunum.