Stjórnarmenn Vátryggingafélags Íslands (VÍS) hafa ákveðið að afsala sér 75 prósent hækkun á stjórnarlaunum sínum sem var samþykkt samhljóma af hluthöfum félagsins á aðalfundi hans 12. mars síðastliðinn. Stjórnarmenn verða því áfram með 200 þúsund krónur á mánuði fyrir störf sín og stjórnarformaður fær 400 þúsund krónur greiddar á mánuði. Þetta kemur fram í tilkynnningu til Kauphallar í morgun.
Til stóð að hækka laun stjórnarmanna úr 200 þúsund krónum í 350 þúsund krónur á mánuði. Formaður stjórnar átti að hækka úr 400 í 600 þúsund krónur. Hækkun stjórnarlauna átti því að vera 75 prósent og hækkun stjórnarformanns 50 prósent. VÍS greiddi hluthöfum sínum 2,5 milljarða króna í arð vegna síðasta árs.
Í tilkynningunni til Kauphallar segir en fremur: "Á aðalfundinum var fyrirkomulagi stjórnarlaunagreiðslna breytt þannig að hætt var að greiða fyrir hvern aukafund til viðbótar fastri mánaðarlegri þóknun samhliða því að fjárhæð fastrar þóknunar var hækkuð. Var breytingunni ætlað að auka gagnsæi um fyrirkomulag stjórnarlaunanna. Afsal stjórnarmanna á hækkun launanna sem ákveðin var á aðalfundinum mun því leiða til umtalsverðrar lækkunar stjórnarlauna frá fyrra starfsári þar sem gamla fyrirkomulaginu um greiðslur fyrir setna aukafundi hefur verið hætt.
Það er von stjórnar VÍS að afsal hækkunar stjórnarlauna verði þáttur í að stuðla að sátt á vinnumarkaði."
Miklu meiri hækkanir en standa verkafólki til boða
Það var sem að sprengju hafi verið kastað inn í deilurnar á vinnumarkaði hafi þegar tilkynnt var að laun stjórnarmanna hjá HB Granda myndu hækka um 33 prósent þar sem fiskverkafólkinu sem vinnur í frystihúsi félagsins stendur til boða 3,5 prósent launahækkun. Tíðindin hertu enn á þeim rembihnút sem er í kjaraviðræðunum sem stendur. Kjarninn ákvað í kjölfarið að kanna laun stjórnarmanna allra skráðra félaga á Íslandi, hversu mikið þau áttu að hækka samkvæmt tillögum sem lagðar voru fyrir aðalfundi þeirra og hversu háar arðgreiðslur voru greiddar til hluthafa félaganna.
Niðurstaðan var sú að fjögur af þeim fjórtán félögum sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað hækkuðu laun stjórnarmanna sinna um tíu prósent eða meira á milli ára. Mest var hækkunin hjá VÍS þar sem stjórnarmenn hækkuðu um 75 prósent í launum. Sú hækkun hefur nú verið dregin til baka. Hæst launaði stjórnarmennirnir eru hjá Marel en sá lægstlaunaði hjá Nýherja. Meðallaun almennra stjórnarmanna í skráðum íslenskum félögum voru, áður en að VÍS dró sínar hækkanir til baka, 279 þúsund krónur á mánuði, eða 21 þúsund krónum lægri en kröfur Starfsgreinasambands Íslands um lágmarkslaun fyrir fulla vinnu eru í yfirstandandi kjaradeilum. Meðallaun stjórnarformanna skráðra félaga voru töluvert hærri, eða 563 þúsund krónur á mánuði.
Skráð félög á Íslandi greiddu hluthöfum sínum samtals 20,5 milljarða króna í arð vegna frammistöðu félaganna á síðasta ári.
Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir 3,5 til 5,0 prósent hækkun launa þorra launþega landsins í þeim kjaradeilum sem nú standa yfir.
Rannveig Rist þiggur ekki hækkun
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi og aðalmaður í stjórn Samtaka atvinnulífsins,tilkynnti síðan fyrir tæpri viku að hún ætli ekki að þiggja 33,3 prósent launahækkun fyrir að sitja í stjórn HB Granda. Hún sagði í tilkynningu að eftir á að hyggja sé hækkunin á milli ára ekki í takti við stöðu kjaramála á Íslandi og því muni hún ekki þiggja hana.
Í tilkynningu sinni sagði Rannveig að þar sem gagnrýni á ákvörðun hluthafa HB Granda um þóknun til stjórnar fyrirtækisins hafi að hluta til beinst sérstaklega að sér vegna, stöðu hennar í stjórn Samtaka atvinnulífsins, vildi hún taka fram að hluthafar hafi samþykkt tilögu stjórnar um þóknun stjórnarmanna með öllum greiddum atkvæðum. Hún sé ekki hluthafi. „Á milli aðalfunda urðu þær breytingar hjá HB Granda að fyrirtækið var skráð á Aðalmarkað NASDAQ OMX Iceland. Það felur í sér að meira reynir á stjórnarhætti fyrirtækisins en áður, sem ekki er óeðlilegt að endurspeglist að einhverju leyti í þóknun stjórnar. Þrátt fyrir hækkunina er þóknun stjórnarmanna hjá HB Granda sú næstlægsta meðal fyrirtækja á Aðallistanum. Eftir á að hyggja er hækkunin á milli ára hins vegar úr takti við stöðu kjaramála á Íslandi. Ég hef því ákveðið að þiggja hana ekki.“