Mun fleiri stjórnendur telja að núverandi aðstæður í atvinnulífinu séu góðar en að þær séu slæmar, en flestir telja þær hvorki góðar né slæmar. Þetta sýnir ný könnun sem gerð var á vegum Samtaka atvinnulífsins.
Væntingar um að þær fari batnandi eru minni en áður. Nægt framboð er af starfsfólki en helst skortir það í flutningum og ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Stjórnendur gera ráð fyrir lítilsháttar fjölgun starfsmanna næstu sex mánuði, að því er könnunin leiðir í ljós.
Fjárfestingar aukast meira á árinu en undanfarin ár. Að jafnaði vænta stjórnendur 3,0% verðbólgu næstu tvö árin en aðeins 1,2 prósent hækkun á vörum og þjónustu eigin fyrirtækja næstu sex mánuði. Stjórnendur búast við að gengi krónunnar veikist um tvö prósent á næstu tólf mánuðum og að stýrivextir Seðlabankans hækki.
Þetta eru helstu niðurstöður könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins, sem gerð var í mars 2015 fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands.