Og meira af Landsbankanum. Ríkisbankinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að ætla að byggja sér nýjar 14.500 fermetra höfuðstöðvar við Austurhöfn í Reykjavík, við hlið Hörpu, fyrir átta milljarða króna. Áform bankans hafa verið harðlega gagnrýnd, og þá sérstaklega á meðal stjórnarþingmanna á Alþingi.
Þá hefur Vestmannaeyjabær blandað sér skemmtilega í málið með því að kalla eftir því að boðað verði til hluthafafundar hjá Landsbankanum til að ræða áformin, og bæjarstjórinn í Kópavogi sá sér leik á borði og bauð ríkisbankanum að flytjast í bæinn.
Svo hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra stigið fram og gagnrýnt skipulagsmálin í kringum fyrirhugaða framkvæmdina, eins ótrúlegt og það nú hljómar, gagnrýnt forgangsröðun ríkisbankann og sagt að það væri undarlegt ef Landsbankinn hyggist ráðast í framkvæmdina í beinni andstöðu við vilja almennings í málinu.
En hvað með stjórn bankans? Í hvernig stöðu er hún? Hún er væntanlega orðin þreytt á að taka við höggum frá þingmönnum, og þá sérstaklega úr ranni Framsóknarflokksins, að undanförnu, en er ekki ljóst að það getur aðeins tvennt gerst í stöðunni sem uppi er? Annað hvort hættir hún við áformin um höllina við sundin, eða hún segir af sér.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.