Stjórnvöld eru nú að skoða leiðir til þess að koma til móts við ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref inn á fasteignamarkað, með því að styrkja það með peningaframlagi svo það geti uppfyllt skilyrði sem fjármálastofnanir setja fyrir lánafyrirgreiðslu. Er meðal annars horft til Bretlands í þessum efnum, þar sem hið opinbera kemur til móts við kaupendur fyrstu eignar með framlagi. Þetta kom fram í máli Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, í þættinum Vikulokunum á RÚV.
Rætt var þar um stöðuna á húsnæðismarkaði, en stór hópur fólks ræður ekki við að kaupa fasteign, vegna skilyrða sem sett eru fyrir lánafyrirgreiðslu, meðal annars kröfu um eiginfjárframlag.
Bankarnir lána að hámarki 85 prósent af kaupverði þegar kemur að fasteignakaupum, sem gerir mörgum erfitt um vik með kaup. Landsbankinn og Arion banki lána báðir 85 prósent að hámarki, en Íbúðalánasjóður býður að hámarki 80 prósent veðhlutfall. Íslandsbanki býður mest 90 prósent lán, en það er aðeins fyrir einangraðan hóp sem er að kaupa litlar eignir og taka lágar upphæðir að láni.
Ef mið er tekið af eign sem kostar 25 milljónir, sem er nálægt lagi þegar kemur að fyrstu kaupum, þá lána bankarnir að hámarki 21,25 milljónir, en afganginn, 3,75 milljónir, þurfa kaupendur að reiða fram, standist þeir greiðslumat. Þetta reynist mörgum erfitt.
Eygló segir mikla vinnu hafa farið í það að undanförnu innan ráðuneytis hennar, að kortleggja þennan vanda og meta hvaða úrræði nýtist þessum hópi best. Von er á frumvörpum sem taka á þessum vanda, að hennar sögn, á þessu ári.