Djúpavogshreppur hefur birt myndband á heimasíðu sveitarfélagsins og Youtube þar sem ákvörðun útgerðarfélagsins Vísis, um að hætta fiskvinnslu í bænum, og viðbrögð stjórnvalda í kjölfarið eru harðlega gagnrýnd.
Markmiðið með gerð myndbandsins, sem unnið var með stuðningi AFLs starfsgreinafélags, er að vekja almenning og stjórnvöld til umhugsunar um stöðu Djúpavogshrepps og ágalla fiskveiðistjórnunarkerfisins, sem smærri byggðum landsins er gert að búa við, að því er segir í tilkynningu. Þar segir jafnframt að kerfið vegi með ómannúðlegum og óvægnum hætti að tilveru fólks í landinu með stuðningi stjórnvalda. Íbúar Djúpavogshrepps krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda um að tryggja byggðinni sanngjarna hlutdeild í hinni sameiginlegu auðlind.
Myndbandið og viðfangsefni þess fá umfjöllun í Kastljósi á RÚV í kvöld en þar verður rætt við Gauta Jóhannesson, sveitarstjóra. Í lok myndbandsins birtist setningin: "Deilið þessu myndbandi í þágu réttlætis og baráttu fyrir smærri byggðir í landinu."
Með ákvörðun Vísis missa um tuttugu og fimm starfsmenn Vísis vinnuna á Djúpavogi. Hluta þeirra hefur verið boðið að flytjast til Grindavíkur, þangað sem starfsemin verður flutt. íbúar Djúpavogshrepps eru 470 talsins.
Heimamennirnir Sigurður Már Davíðsson og Skúli Andrésson sáu um vinnslu myndbandsins fyrir Djúpavogshrepp.