Viðskiptaaðgerðir Rússlands voru eina málið á dagskrá á fundi ríkisstjórnarinnar í dag, sem kom saman fyrir hádegi í stjórnarráðinu. Tekin var ákvörðun um að setja á fót sérstakan samráðshóp sem hefur það hlutverk að fá nákvæmar upplýsingar um innflutningsbann Rússa, eiga í samskiptum við þá og að eiga í samtali við hagsmunaaðila. Þetta hafði fréttastofa RÚV eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í hádegisfréttum en rætt var við Bjarna í stjórnarráðinu.
Bjarni sagði stjórnvöld nú leggja mat á stöðuna og kanna hvað þau geti gert til að hagsmunir fari ekki forgörðum. Hann sagði það skjóta skökku við að viðskiptabann Rússa komi verr niður á Íslandi en öðrum ríkjum á innflutningsbannlista Rússa, en á listanum voru fyrir ríki Evrópusambandsins, Bandaríkin, Kanada, Noregur og Ástralía. „Á sama tíma erum við með 18 prósent toll á makríl inn í Evrópusambandið og við stöndum í stríði við það til að stunda veiðar sem við teljum eðlilegar. Eitthvað verður undan að láta þegar svona kemur upp,“ sagði Bjarni.
Einnig var rætt við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokks og formann utanríkismálanefndar Alþingis. Nefndin fundaði í morgun og sagði Birgir að um upplýsingafund hafi verið að ræða. Aðspurður sagði hann engann á fundinum hafa talað fyrir því að Ísland dragi sig með einhverjum út út úr þeim rástöfunum sem Ísland hefur tekið þátt, og vísar þar til viðskiptaþvingana gegn Rússum sem Ísland er aðili að.
Dmitry Medveded, forsætisráðherra Rússa, tilkynnti í gær að Ísland sé komið á lista yfir þau lönd sem nú er óheimilt að flytja inn matvæli frá. Auk Íslands bættust Albanía, Svartfjallaland, Liechtenstein og Úkraína á listann. Innflutningsbann Rússa er viðbragð þeirra við viðskiptaþvingunum sem þeir búa við vegna innlimunar þeirra á Krímskaga. Rússland er stórt viðskiptaland Íslands og stærsti kaupandi uppsjávarafla, einkum makríls. Ákvörðun þeirra er því mikið áfall fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og getur tapað útflutningsverðmæti numið tugum milljarða króna.