Stýrihópur um framtíð ferðaþjónustu á Íslandi telur undirstöður ferðaþjónustu á Íslandi vera of veikar til þess að hægt sé að móta framtíðarstefnu greinarinnar. Stýrihópurinn, sem starfað hefur á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og Samtaka ferðaþjónustunnar, skilaði niðurstöðum sínum í dag.
Til þess að treysta stoðir ferðaþjónustuiðnaðar hér á landi verður sett á fót Stjórnstöð ferðamála. Hluverk hennar verður að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við opinberar stofnanir og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Stjórnstöðinni er ætlað að starfa í fimm ár eða til ársloka 2020.
Í skýrslu stýrihópsins, sem kallast Vegvísir í ferðaþjónustu, er fjallað um flókið lagaumhverfi, óljósa ábyrgð og óskýrt skipulag greinarinnar. Um gjaldtöku á ferðamannastöðum er lagt til að „heimildir til innheimtu þjónustugjalda verði nýttar á áfangastöðum þar sem við á, þannig að greitt verði fyrir virðisaukandi þjónustu“. Skýrslan segir jafnframt brýnt að hugað verði að náttúru- og minjavernd og er lagt til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fái breytt hlutverk til að fjármagna uppbyggingu áfangastaða.
Stýrihópur verkefnisins var skipaður Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem einnig var formaður, Grími Sæmundsen, forstjóra og formanni Samtaka ferðaþjónustunnar, Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, og Ólöfu Ýrr Atladóttur, ferðamálastjóra.
Í verkefnahóp sátu ráðgjafarnir Guðfinna S. Bjarnadóttir og Vilhjálmur Kristjánsson frá LC Ráðgjöf, Helga Haraldsdóttir og Brynhildur Pálmarsdóttir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Helena Karlsdóttir frá Ferðamálastofu og Þorgeir Pálsson og Vilborg Helga Júlíusdóttir ráðgjafar, tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar.
Lagt er til að heimildir til gjaldtöku fyrir virðisaukandi þjónustu verði nýttar. Auk þess verður hlutverki Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða breytt til að fjarmagna uppbyggingu áfangastaða.
Stjórnstöð á að einfalda starfsumhverfið
Í tíu manna stjórn Stjórnstöðvar ferðamála munu fjórir ráðherrar helstu málaflokkanna sem tengjast ferðaþjónustunni ásamt fjórum fulltrúum greinarinnar og tveimur fulltrúum sveitarfélaga. Stjórnstöðin á að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við alla þá sem koma að ferðaþjónustunni, jafnt meðal hins opinbera, einkaaðila eða hagsmunaaðila.
Forsætisráðherra mun skipa í stórn stjórnstöðvarinnar en iðnaðar- og viðskiparáðherra verður formaður. Auk innanríkisráðherra munu fjármála- og efnahagsráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra skipa ráðherrasætin þrjú. Hörður Þórhallsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála til að fylgja eftir Vegvísi í ferðaþjónustu sem kynntur var í dag.
Samkvæmt spá sem birt er í skýrslunni eru áætlaðar gjaldeyristekjur þjóðarbúsins af ferðaþjónustu í heild sinni árið 2015 verða um 350 milljarðar króna. Árið 2020 er gert ráð fyrir, ef vel tekst til, að tekjurnar nemi 620 milljörðum og meira en 1.000 milljörðum árið 2030. Í skýrslunni er þetta sett í samhengi við áætlaðar heildargjaldeyristekjur þjóðarbúsins 2015 sem verða um 1.140 milljarðar króna.
Stýrihópurinn leggur því áherslu á að til þess að ferðaþjónustuiðnaðurinn geti vaxið á Íslandi verði að einfalda starfsumhverfi greinarinnar. Markmið og mælikvarðar á árangri í ferðaþjónustu, eins og stýrihópurinn setur þau fram eru: jákvæð upplifun ferðamanna, aukin arðsemi, aukin dreifing ferðamanna og jákvæð viðhorf til greinarinnar. Um alla þessa þætti vantar mælanleg gögn svo gagnaöflun hefur verið gerð að forgangsmáli á næsta ári. „Þannig fáist þau grunnviðmið sem þarf til að setja töluleg markmið í framhaldinu og fylgja þeim eftir,“ segir í skýrslunni.
Áhersluþættirnir sjö sem tilgreindir eru í Vegvísi í ferðaþjónustu og verða lykilþættir í starfsemi stjórnstöðvarinnar til 2020 eru: Samhæfing, jákvæðu upplifun ferðamanna, áreiðanleg gögn, náttúruvernd, hæfni og gæði, aukin arðsemi og dreifing ferðamanna.