Marínó G. Njálsson, fyrrverandi stjórnarmaður hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, skorar á ríkisstjórnina að koma á fót sérstökum sjóði, þar sem lagt verður inn fé úr leiðréttingunni frá fólki sem ekki vill þiggja peningagjöfina úr ríkissjóði, og sjóðnum verði svo varið í önnur þjóðþrifamál á Íslandi. Þetta er inntak pistils sem birtist á heimasíðu Marínós í gær, en hann og eiginkona hans, Harpa Karlsdóttir eru bæði skrifuð fyrir áskoruninni.
Sóttu um leiðréttinguna en vilja hana ekki núna
"Við hjónin fengum, eins og margir aðrir landsmenn, tilkynningu í vikunni að við ættum rétt á leiðréttingu vegna þeirra verðtryggðu fasteignalána sem við vorum með á árunum 2008 og 2009. Við reiknuðum aldrei með að upphæðin yrði há, en sóttum samt um. Vegna breyttra aðstæðan, þá teljum við hins vegar heiðarlegast af okkur að nýta okkur ekki leiðréttinguna," segir í áskoruninni.
"Það er svo sem úr okkar höndum hvernig þessum peningum verður ráðstafað, fyrst við munum ekki þiggja þá. Okkur langar þó að skjóta þeirri hugmynd að ríkisstjórninni, að þeir peningar sem svona falla til, lágar upphæðir eða háar, fari í sjóð sem hafi það þjóðþrifaverkefni að byggja upp heilbrigðiskerfið í landinu og bæta stöðu öryrkja og aldraðra. Þannig að, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, við biðjum ykkar að leggja við hlustir og sjá til þess að þetta verði gert mögulegt."
Þó nokkur hópur fólks hefur lýst því yfir, til að mynda á Facebook, að hann muni ekki þiggja "leiðréttinguna," af ýmsum ástæðum. Lífleg og, oft og tíðum, heiftug umræða hefur fylgt í kjölfarið þar sem hópurinn hefur meðal annars verið gagnrýndur fyrir að hafa sótt um leiðréttingu sem hann svo ekki vildi.
Skora sérstaklega á stjórnmálaleiðtoga að hafna leiðréttingunni
Hjónin skora jafnframt á fyrirtæki landsins að greiða litlar eða stjórar fjárhæðir í sjóðinn.
"Þessu til viðbótar viljum við hjónin skora á alla sem sóttu um og geta fengið leiðréttingu, en telja sig ekki þurfa á henni að halda, telja upphæðina svo litla að hún skipti ekki máli, telja sig fá óbragð í munninn við að þiggja hana, telja leiðréttinguna vera illa meðferð á almannafé eða hafa talað gegn leiðréttingunni af hvaða ástæðu sem er, að þiggja ekki leiðréttinguna með ósk um að sú upphæð, sem þeim var úthlutað, fari í sjóð til uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu og til málefna öryrkja og aldraðra. Sérstaklega skorum við á formenn stjórnmálaflokka á þingi, sem sóttu um og geta fengið leiðréttingu sinna lána, að gera slíkt hið sama."