Stofnendur Google, hinir moldríku Larry Page og Sergey Brin, högnuðust um fjóra milljarða Bandaríkjadala hvor á einum degi í síðustu viku, þegar verð á hlutabréfum tæknirisans hækkuðu á hlutabréfamörkuðum. Fréttamiðlarnir TIME, Fortune og Bloomberg greina frá málinu.
Verð á hlutabréfum í Google hækkuðu bratt eða um hátt í 16 prósent í síðustu viku þegar rekstrarniðurstöður fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi voru kynntar, sem voru um margt jákvæðari en flestir gerðu ráð fyrir. Þá tilkynnti fyrirtækið samhliða um aukið aðhald í rekstri.
Hlutabréfaverð í Google lokaði í rúmum 672 Bandaríkjadölum fyrir hlut á föstudaginn, og hafði þá hækkað á einum degi um 93 dali, sem hækkaði verðmæti hlutabréfa í eigu stofnenda Google um átta milljarða bandaríkjadali, eða tæplega 1.090 milljarða íslenskra króna.
Söguleg aukning auðs
Um er að ræða mestu aukningu auðs á einum degi í sögu Bandaríkjanna, en verðmæti Google hækkaði um 51 milljarð Bandaríkjadala sama daginn í síðustu viku.
Auðæfi þeirra Page og Brin hafa hækkað um 24 prósent á yfirstandandi ári, eða um sjö milljarða Bandaríkjadali hjá hvorum stofnanda Google. Þá hefur auður stjórnarformannsins Eric Schmidt, sem á 1,3 prósenta hlut í Google, hækkað um 22 prósent á árinu.
Skörp hækkun hlutabréfa í Google á föstudaginn skilaði fyrirtækinu í annað sætið yfir stærstu fyrirtæki heims, þar sem bandaríski tæknirisinn Apple trónir á toppnum. Þá má til gamans geta að Apple fyrirtækið er metið á um 746 milljarða Bandaríkjadali, eða um 101.456.000.000.000 íslenskar krónur.