Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að NATO leitist ekki eftir því að lenda í árekstrum við Rússland og að bandalagið vilji alls ekki nýtt kalt stríð. Það geti hins vegar ekki horft aðgerðarlaust á þegar friði í Evrópu sé ógnað með aðgerðum Rússa. Þetta kom fram á fundi Stoltenbergs með fréttamönnum síðdegis í dag.
Aðspurður hvað NATO myndi gera ef ekki væri búið að leysa úr ástandinu í Úkraínu, þar sem Rússland hefur innlimað Krímskagan og er talið styðja við aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins með vopnum og vistum, eftir þrjú ár sagði Stoltenberg: „Við verðum að búast við að þetta muni standa yfir í langan tíma.“
Tvær ákvarðanir teknar til að styðja við framtíðina
Fundur utanríkisráðherra NATO-ríkjanna 28 stendur yfir í dag og á morgun í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel. Um klukkan hálf fjögur síðdegis hófst annar fréttamannafundur Stoltenbergs í dag þar sem hann upplýsti um niðurstöðu þeirra viðræðna sem átta hafa sér stað eftir hádegið. Kjarninn greindi frá efni fyrri fundarins fyrr í dag.
Tvær ákvarðanir voru teknar í þessari lotu. Í fyrsta lagi mun verða myndaður tímabundinn viðbragðsherafli (e. interim spearhead force) sem mun geta brugðist við ef á þarf að halda innan örfárra daga eftir að þjónustu hans verður óskað. Þessi herafli, sem verður undir merkjum NATO, mun aðallega verða samansettur af hermönnum frá Þýskalandi, Hollandi og Noregi.
Í öðru lagi var ákveðið að viðhalda viðveru bandalagsins við austur-landamæri þess. Ástæða þessa er sú ógn sem stafar af tilburðum Rússa í Úkraínu og víðar á áhrifasvæði ríkisins gagnvart þeim NATO-aðildarríkjum sem eiga landamæri að óróasvæðum.
Öll 28 ríki NATO munu taka þátt í þessum aðgerðum, að sögn Stoltenberg. Á fundinum fyrr í dag sagði hann: „28 fyrir 28 árið 2015.“ Það þýðir að Ísland mun einnig leggja eitthvað að mörkum til þeirra, þrátt fyrir að landið sé herlaust.
Á fundinum fyrr í dag sagði Jens Stoltenberg: „28 fyrir 28 árið 2015.“ Það þýðir að Ísland mun einnig leggja eitthvað að mörkum til þeirra, þrátt fyrir að landið sé herlaust. Á myndinni sjást allir utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna ásamt Stoltenberg.
Umfangsmesta áætlun NATO frá lokum kalda stríðsins
Báðar ákvarðanirnar eru til þess fallnar að styðja við aðgerðaráætlunina Readiness Action Plan (RAP) sem samþykkt var að ráðast í á síðasta leiðtogafundi NATO-ríkjanna sem haldinn var í Wales í byrjun september síðastliðinn. Um er að ræða umfangsmestu aðgerðaráætlun sem NATO hefur ráðist í að hrinda í framkvæmd frá lokum kalda stríðsins.Hún felur meðal annars í sér að um fjögur þúsund manna viðbragðsherlið verði myndað undir hatti NATO sem á að geta brugðist við innan tveggja sólarhringa ef Rússar ógna einhverju þeirra 28 landa sem eru aðilar að bandalaginu í dag. Úkraína er ekki aðili, þótt ríkið sé í nánu samstarfi við NATO. Það eru hins vegar Eystrasaltsríkin og Pólland og þar óttast ráðamenn, kannski eðlilega í ljósi sögunnar, að Rússar gætu framlengt áhrifakrumlu sína í átt að þeirra landamærum í náinni framtíð.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og sendinefnd hans áttu fund með Stoltenberg fyrr í dag
Á leiðtogafundunum í Wales var einnig ákveðið að auka fjárútlát í varnarmál á meðal aðildarríkja, reyndar með þeim fyrirvara að þau þyrftu að haldast í hendur við aukna þjóðarframleiðslu. Þ.e. ef þjóðarframleiðsla eykst þá skuldbundu þau ríki sem halda úti her sig til að auka framlög til varnarmála. Það er orðið ansi langt síðan að slíkt var gert, enda nánast fordæmalausir friðartímar staðið yfir í Evrópu undanfarin aldarfjórðung eftir lok kalda stríðsins. Utan átakanna á Balkansskaga á tíunda áratugnum hefur ríkt friður í álfunni. Þar til núna.
Er nýtt kalt stríð að hefjast?
Margir blaða- og fréttamenn sem eru staddir hér í höfuðstöðvum NATO vegna fundar utanríkisráðherranna telja að nýtt kalt stríð sé í uppsiglingu. Þeir eru reyndar langflestir frá mið- og austur Evrópuríkjum sem eru sögulega brennd af valdabrölti Rússa og búast, kannski eðilega, við hinu versta. Fjölmiðlafólkið finnur staðfestingu fyrir þennan ótta sinn í þeim þunga sem fylgir harðorðum yfirlýsingum stjórnenda NATO og utanríkisráðherra aðildarríkjanna um aðgerðir Rússa.
Fjölmiðlafólkið finnur staðfestingu fyrir þennan ótta sinn í þeim þunga sem fylgir harðorðum yfirlýsingum stjórnenda NATO og utanríkisráðherra aðildarríkjanna um aðgerðir Rússa.
Vestrænu blaðamennirnir virðast sumir telja að NATO-báknið sé að hoppa á tækifærið til að gera sig gildandi á ný og blási því út kassann, eftir að hafa verið nokkurs konar bastarður án raunverulegs varnarhlutverks í álfunni sem það fyrst og síðast að verja undanfarna áratugi. Stærstu verkefni NATO í dag eru hernaðaraðgerðir í Afganistan (lýkur um næstu áramót), viðvera og stuðningur í Kosovo, eftirlit í Miðjarðarhafinu og sjóræningjaveiðar við strendur Afríku. Nýtt kalt stríð myndi auka mikilvægi bandalagsins til muna og auðveldara yrði að sannfæra þá sem borga fyrir tilvist þess, skattgreiðendur í Evrópu og Norður-Ameríku, um það mikilvægi ef ógnin er við dyrakarminn hjá þeim.
Þórður Snær Júlíusson skrifar frá höfuðstöðvum NATO í Brussel.