Stór hluti starfsfólks Stjórnarráðs Íslands þekkir ekki þær siðareglur sem settar voru fyrir það árið 2012. Lítil áhersla hefur verið lögð á fræðslu og eftirfylgni til að tryggja að reglurnar komi að tilætluðum notum og því ríkir óvissa um hvort þær hafi stuðalað að því að efla fagleg vinnubrögð. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis sem heitir „Siðareglur fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands“ og var birt í morgun.
Samhæfingarnefnd ekki starfandi
Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, staðfesti árið 2012 siðareglur fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands. Þeim var ætlað að efla fagleg vinnubörgð og auka traust á stjórnsýslunni með því að beina til opinberra starfsmanna það sem kallað var mikilvægum siðferðislegum gildum og hvetja þá til að hafa þau að leiðarljósi í daglegum störfum sínum. Í reglunum er megináhersla á ábyrgð og skyldu starfsmanna til að starfa í þágu almennings og koma þannig fram að beri megi traust til þeirra og embættanna sem þeir eru fulltrúar fyrir.
Ríkisendurskoðun framkvæmdi úttekt á innleiðingu reglnanna og í skýrslunni sem birt var í morgun er farið yfir niðurstöður hennar. Þar kemur fram að langflestir starfsmenn Stjórnarráðsins telji reglurnar mikilvægan þátt í störfum sínum og hlutfallslega fáir telji að það þurfi að breyta þeim.
Þá kom í ljós að óvissa ríkir um hvort reglurnar hafi stuðlað að því að efla fagleg vinnubrögð innan Stjórnarráðsins
Í skýrslunni segir einnig að „stór hluti starfsfólks telur sig ekki þekkja reglurnar vel og einnig kom fram að lítil áhersla hefur verið lögð á að fylgja þeim eftir með skipulegri fræðslu og eftirfylgni og tryggja þar með að þær komi að tilætluðum notum[...]Þá kom í ljós að óvissa ríkir um hvort reglurnar hafi stuðlað að því að efla fagleg vinnubrögð innan Stjórnarráðsins“.
Samhliða þeirri ákvörðun að setja starfsmönnum Stjórnarráðsins siðareglur var ákveðið að forsætisráðherra ætti að skipa, til þriggja ára í senn, samhæfingarnefnd um siðferðisleg viðmið fyrir stjórnsýsluna. Slík nefn er hins vegar ekki starfandi í dag.
Hvetja ráðuneytin til breytinga
Ríkisendurskoðun hvetur forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti til að tryggja starfsfólki ráðuneyta reglubundna fræðslu um siðareglurnar og forsætisáðuneytið beiti sér fyrir því að „ráðuneytin fylgi samræmdri stefnu við að ná þeim markmiðum sem reglurnar kveða á um. Enn fremur er ráðuneytið hvatt til að skipa að nýju samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna í samræmi við ákvæði laga þar um. Sé ekki talin þörf fyrir þá nefnd beri að breyta lögum. Loks hvetur Ríkisendurskoðun fjármála- og efnahagsráðuneyti til að tryggja að starfsfólk Rekstrarfélags Stjórnarráðsins og verktakar sem starfa á vegum ráðuneytanna fái reglulega fræðslu um inntak siðareglnanna“.