Stórar bandarískar smásölukeðjur hafa hafnað nýkynntu greiðslukerfi Apple-risans, sem kallast Apple Pay. Wal-Mart, Best Buy, Rite Aid og CVS hafa allar sagt að þær vilji ekki, og muni ekki, bjóða upp á greiðsluleiðina fyrir sína viðskiptavini. Bæði Rite Aid og CVS prófuðu að bjóða upp á þjónustuna en hættu því um liðna helgi. Frá þessu er greint á vef Business Insider.
Apple kynnti Apple Pay, snertilausa greiðsluleið, í september síðastliðnum. Með Apple Pay eru kortaupplýsingar geymdar í iPhone tækinu og símanum rennt í gegnum þar til gerðan posa til að greiða fyrir vörur. Með þessu áttu eigendur iPhone síma ekki lengur að ganga með veski til að hýsa fjölmörg greiðslukort og/eða peningaseðla.
Samkvæmt umfjöllun um málið á vef The Verge hefur alls ekki gengið vel hjá Apple að sanka að sér samstarfsaðilum til að taka upp Apple Pay greiðsluleiðina. Þar segir að samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Apple séu einungis 34 smásölusamstarfsaðilar sem notast við Apple Pay leiðina í Bandaríkjunum. Átta þeirra eru mismunandi útgáfur af Foot Locker fyrirtækinu og einn samstarfsaðilinn er Apple sjálft. Þegar búið er að gera ráð fyrir þessu eru samstarfsaðilarnir því í raun einungis 26 talsins.
Ástæða þessa að stórar smásölukeðjur vilja ekki taka upp Apple Pay kerfið, sem er þrátt fyrir allt mjög háþróað og notendavænt kerfi þar greitt er fyrir með einni snertingu, er einföld: þær vilja ekki að Apple komi sér upp einokun á verðmætum upplýsingum um hegðun viðskiptavina þeirra. Sum önnur greiðslukerfi, sem verið er að þróa fyrir snjalltæki, munu gefa stóru keðjunum kleift að halda eftir þeim upplýsingum. Þetta eru kerfi á borð við CurrentC, sem Wal Mart ætlar sér að notast við.
Þótt illa hafi gengið hjá Apple að koma Pay-leið sinni að þá er ekki talið útilokað að hún muni síðar meir fá annað tækifæri til að ná fótfestu. Þægindin sem leið Apple býður upp á fyrir neytendur til að greiða fyrir vörur sínar er einfaldlega talin vera mun betri en þær leiðir sem samkeppnisaðilar hafa boðið upp á.