Breska olíufélagið BP, British Petroleum, hefur gengið frá stærsta fjárfestingasamningi sem gerður hefur verið við egypsk stjórnvöld. Hann er upp á tólf milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega 1.600 milljörðum króna. Frá þessu greindi Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, á ráðstefnu í Egyptalandi í dag. Fjárfestingin, sem er í olíuiðnaði, dreifist á fjögur ár. Hammond segir að bresk fyrirtæki vilji komi að uppbyggingu í Egyptalandi og sjá mikil tækifæri í því að byggja upp innviði þegar komi að olíuiðnaði.
BP signs $12B Egypt energy deal; U.S. appeals size of oil spill http://t.co/sjPJSrFKgw $BP
— SA Breaking News (@MarketCurrents) March 15, 2015
Þýski raftækja- og vélaframleiðandinn Siemens tilkynnti einnig um miklar fjárfestingar í Egyptalandi á ráðstefnunni, en heildarumfang þeirra nemur um tíu milljörðum Bandaríkjadala, rétt um 1.400 milljörðum króna.
Egyptaland hefur átt erfitt uppdráttar í efnahagslífinu undanfarin misseri, en mikill glundroði hefur einkennt stjórnskipan og viðskiptalíf landsins eftir fall einræðisherrans Hosni Mubarak árið 2011. Íbúar landsins eru svipað margir og í Þýskalandi, eða rúmlega 80 milljónir. Landið hefur sterkari stoðir og meiri möguleika til að byggja upp sterkt hagkerfi en flestar þjóðir Afríku, þar sem olíuiðnaður og ferðaþjónusta eru á meðal mikilvægustu atvinnugreina landsins.