Ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um flutning Fiskistofu hafði ekki lagastoð og var því ólögmæt. Áform um að leita heimildar þingsins nú í vetur breytir engu þar um. Tal ráðherrans um að ekki hafi verið ákveðið að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar er einnig rangt og hann reynir að afvegaleiða eftirlitsstofnun Alþingis með því.
Þetta kemur fram í athugasemdum starfsmanna Fiskistofu til umboðsmanns Alþingis vegna flutnings stofnunarinnar. Þar eru gerðar miklar athugasemdir við svör Sigurðar Inga til umboðsmanns fyrir jól vegna málsins. Ráðherra talar þar um áform um að flytja Fiskistofu, en ekki ákvörðun. Þetta er rangt, og ámælisvert, að mati starfsmanna Fiskistofu. Starfsmennirnir vitna í hljóðskrár af fundum með ráðherranum sem og ummæli hans í fjölmiðlum til að stuðnings þessu. „Ráðherra getur ekki bent á lagaheimildir fyrir ákvörðun sinni, sem eðlilegt er, þar sem þær eðli málsins samkvæmt finnast ekki.“
„Þótt vissulega mætti fagna því ef ráðherra hefði enga ákvörðun tekið hér að lútandi, er sú stjórnsýsla sem fólst í ákvörðun ráðherra og nú í svari hans stórlega ámælisverð. Ákvörðunin hefur verið mjög skaðleg stofnuninni, viðskiptavinum hennar, en ekki síst starfsmönnum Fiskistofu og fjölskyldum þeirra,“ segir í athugasemdunum.
Starfsmenn Fiskistofu segja jafnframt að frumvarp um breytingar á Stjórnarráði Íslands, þar sem heimila á ráðherrum að taka ákvarðanir um staðsetningu undirstofnana, feli í sér ólögmætt framsal löggjafarvalds til framkvæmdavalds.