Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn og greiðslukortafyrirtækin Borgun og Valitor hafa fallist á að greiða 1,6 milljarða króna sekt til Samkeppniseftirlitsins. vegna rannsóknar eftirlitsins á samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.
Fyrirtækin hafa þar með gert sáttir við Samkeppniseftirlitið og viðurkenna um leið að háttsemi þeirra hafi hvorki verið í samræmi við samkeppnislög né EES-samninginn. Þá fallast þau á að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til að auka samkeppni.
Kortaþjónustan rúllaði boltanum af stað
Málið má rekja til kvörtunar Kortaþjónustunar ehf. til Samkeppniseftirlitsins. Fyrirtækið taldi að ofangreind fyrirtæki hefðu gerst brotleg við lög með ýmsum aðgerðum sem fyrirtækið taldi að hefðu hindrað samkeppni á markaði. Þann 8. mars birti Samkeppniseftirlitið frummat sitt á málinu í því skyni að auðvelda fyrirtækjunum að nýta andmælarétt sinn. Í kjölfarið óskuðu bankarnir, Borgun og Valitor eftir því að heimild samkeppnislaga til að ljúka málum með sátt yrði nýtt.
Vegna sáttarinnar verða breytingar á greiðslukortamarkaði, þannig að hámark verður sett á milligjald sem er þóknun sem rennur til bankanna, sem útgefanda greiðslukorta, fyrir þjónustu sem bankar veita söluaðilum, meðal annars verslunum, vegna greiðslukortanotkunar. Samkeppniseftirlitið fullyrðir í tilkynningu að breytingarnar muni leiða til lækkunar frá því sem nú er. Þá leiði þær til aukins gagnsæis í gjaldtöku sem sé ætlað að hafa í för með sér aukna hagræðingu. Jafnframt muni Valitor og Borgun skilja á milli útgáfuþjónustu og færsluhirðinga, en samrekstur þessara starfshátta hafi falið í sér samkeppnishindranir gagnvart öðrum keppinautum á greiðslukortamarkaði. Þá er horfið frá því að keppinautar á viðskiptabankamarkaði eigi saman greiðslukortafyrirtæki, sem hafi ekki gefist vel í samkeppnislegu tilliti. Samhliða er tryggt að Valitor og Borgun þjónusti aðra en eigendur sína á jafnræðisgrundvelli, að því er fram kemur í tilkynningunni frá Samkeppniseftirlitinu.
Samkeppniseftirlitið fagnar niðurstöðunni
Þar segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins: „Samkeppniseftirlitið fagnar því að niðurstaða sé nú fengin í þessa umfangsmiklu rannsókn. Þær breytingar sem sáttirnar fela í sér eru mikilvægur áfangi í því að auka samkeppni á fjármálamarkaði, samfélaginu til hagsbóta. Aðgerðirnar eru jafnframt liður í áherslum sem Samkeppniseftirlitið hefur starfað eftir undangengin ár.“
Samkeppnislagabrotin sem um ræðir snúa að framkvæmd við ákvörðun milligjalda og við veitingu vildarpunkta, á árunum 2007 til og með 2009.
Valitor og Borgun, sem hafa verið í eigu keppinauta á fjármálamarkaði, Valitor í eigu Arion banka og Landsbankans og Borgun í eigu Íslandsbanka og Landsbankans. Eignarhaldið hefur verið óheppilegt í samkeppnislegu tilliti að mati Samkeppniseftirlitsins. Sáttirnar sem fyrirtækin hafa nú undirgengis breyta þessu, og verður framvegis óheimilt að hvort þessara greiðslukortafyrirtækja verði í eigu tveggja eða fleiri viðskiptabanka. Eins og Kjarninn greindi fyrstur frá hefur Landsbankinn þegar selt eignarhlut sinn í Valitor og Borgun.
Íslandsbanki naut sérstakrar ívilnunar
Sekt Íslandsbanka nemur 380 milljónum króna, sekt Arion banka og Landsbankans nemur 450 milljónum króna, sekt Valitors nemur 220 milljónum króna og sekt Borgunar nemur 120 milljónum króna.
Við ákvörðun sekta naut Íslandsbanki sérstakrar ívilnunar á grundvelli þess að hann lauk sátt við Samkeppniseftirlitið fyrstur málsaðila. Þessi ríki samstarfsvilji Íslandsbanka hafði mjög jákvæð áhrif á framgang og niðurstöðu málsins.