Stærstu skattkerfisbreytingarnar sem eru framundan á kjörtímabilinu varða þau gjöld sem eru tekin af bíleigendum og bílaumferð. Ýmsir kostir eru í þeirri stöðu, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Hann lýsir því í samtali við Kjarnann að það sé að verða algjör grundvallarbreyting á tekjukerfum ríkisins hvað samgöngur varðar, sem leiða af því að fólk fari nú í minna mæli á bensínstöðvarnar. Fleiri eru á rafbílum og það þarf að byrja að láta þá borga meira, með einhverjum hætti.
Draga á úr ívilnunum fyrir rafbíla og tengiltvinnbíla án þess þó að það ógni þróuninni sem er að verða í orkuskiptum í samgöngum. Orkuskiptin eru komin til að vera og því fylgir að eldneytisgjöld, sem hafa verið mikilvægur tekjustofn ríkisins, eru „að hverfa smám saman,“ segir Bjarni.
„Án breytinga á kerfunum munu tekjurnar halda áfram að falla og þar stefnir í óefni. Þannig að þar erum við að fara að vinna að grundvallarkerfisbreytingu á tekjuöflun ríkisins vegna ökutækja og samgangna,“ segir fjármálaráðherra.
39,8 milljarða tekjur af ökutækjum og eldsneyti
Gjöld af ökutækjum og eldsneyti munu nema 39,8 milljörðum króna á næsta ári, samkvæmt fjármálafrumvarpi ársins 2022, eða um 5 prósentum af heildartekjum ríkissjóðs.
Frá fyrri fjárlögum er nú gert ráð fyrir því að tekjur af vörugjöldum af ökutækjum og bensíni dragist saman um samtals 1,7 milljarða króna og er það í takt við áætlaðar tekjur ríkisins af þessum þáttum samkvæmt áætlun ársins 2021.
Búist er við að í ár verði vörugjöld af ökutækjum 300 milljónum lægri en ráðgert var í fjárlagafrumvarpi ársins og tekjur af vörugjöldum af bensíni verði sömuleiðis 1,6 milljörðum lægri en ráðgert var.
Í fjármálafrumvarpinu segir að bæði sé gert ráð fyrir aukinni einkaneyslu og hagvexti á næsta ári, sem muni endurspeglast í aukinni endurnýjun bílaflotans hjá heimilum og fyrirtækjum – og sér í lagi bílaleigum. Á móti vega „örar tæknibreytingar með tilkomu nýorkubifreiða og sparneytnari véla,“ til lækkunar tekna samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins.
Um útfærslu nýrra tekjuöflunarleiða af bílaumferð segir Bjarni að hann hafi verið með innanhússhóp í fjármálaráðuneytinu að skoða málin. „Hann hefur lokið störfum og nú tekur við að taka stærri skref, stóru skrefin,“ segir Bjarni.
Þarf að koma á einhverri gjaldtöku í vegakerfinu
Aðspurður segist hann telja að einhverskonar gjald fyrir hvern ekinn kílómeter sé það sem á endanum muni koma í staðinn fyrir þá dvínandi tekjustofna sem eru nú til staðar. „Ég held að svona í langri framtíð endum við þar. Í millitíðinni þurfum við að fara að jafna byrðunum betur en við gerum í dag. Við ætlum að draga úr ívilnunum og hvötunum án þess að fórna markmiðinu um orkuskiptin. Ég held að það sé alveg sanngjarnt að segja að við höfum gengið mjög langt, til dæmis fyrir rafmagnsbíla, í því að skapa ívilnanir. Það á bæði við um innflutning en líka fyrir notkunina. Við tökum hvergi gjald fyrir notkun á vegakerfinu og það verður að breytast,“ segir Bjarni.
Bjarni segir að það þurfi að koma á einhverju fyrirkomulagi fyrir gjaldtöku í vegakerfinu. „Þar koma margir kostir til greina, eins og við sjáum bara í öðrum löndum. Það er hægt að lesa af mælum, það er hægt að vera með tollhlið, það er hægt að nota sjálfvirknilausnir og fleira. Þetta er eitthvað sem við ætlum að taka til skoðunar og hrinda í framkvæmd,“ segir Bjarni.
Fólk í dreifðari byggðum þurfi að eiga raunhæfa undankomuleið
Spurður sérstaklega út í það hvort til greina komi að hækka kolefnisgjald enn frekar segir Bjarni að gjaldið hafi verið hækkað í tvígang á síðasta kjörtímabili, en það sé þó ekki hægt að „útiloka það að við höldum áfram að beita bæði priki og gulrót.“
„En stóra spurningin er sú, á hvaða tímapunkti er hleðslustöðvanetið orðið það þéttriðið að það sé sanngjarnt að fólk sem býr í dreifðari byggðum hafi valkost á að koma sér undan kolefnisgjaldinu? Ef við höfum ekki slíkan valkost, annað hvort ekki með ökutæki á sanngjörnu verði eða með ríkt aðgengi að hleðslustöðvum, þá erum við að beita gjaldinu í of ríku mæli án þess að það sé einhver undankomuleið fyrir þau svæði. Það er svona þetta sem ég er að hugsa um.“
Hann bætir því við að það séu þó engin áform um að draga úr kolefnisgjaldinu, þvert á móti.