Lífeyrissjóður verzlunarmanna ákvað í síðustu viku að hækka vexti á óverðtryggðum íbúðalánum sínum um 0,28 prósentustig í 4,13 prósent. Um er að ræða lán fyrir 70 prósent af kaupverði sem að hámarki mega vera 75 milljónir króna. Breytingin tekur hins vegar ekki gildi fyrr en 1. febrúar.
Gildi lífeyrissjóður greindi svo frá því á fimmtudag að stjórn sjóðsins hefði einnig ákveðið að hækka óverðtryggða breytilega vexti sjóðsfélagalána sinna en um 0,25 prósent. Breytingin tekur gildi 17. janúar og eftir það verða vextir óverðtryggðra grunnlána fyrir 65 prósent af kaupverði 4,05 prósent en viðbótarlána fyrir næstu tíu prósentustigum kaupverðs 4,80 prósent. Vextir fyrir 75 prósent lán verða eftir breytinguna 4,15 prósent.
Tilefni þessara hækkana er síðasta stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands í nóvember, þegar þeir vextir fóru úr 1,5 í tvö prósentustig. Stýrivextir hafa alls hækkað um 1,25 prósentustig frá því í maí.
Bankarnir hafa sópað til sín lánum
Viðskiptabankarnir þrír tilkynntu allir um hækkun á óverðtryggðum vöxtum sínum fyrir síðustu mánaðamót og þær vaxtahækkanir tóku allar gildi skömmu síðar. Því eru viðskiptavinir Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka að greiða vaxtahækkunina fyrr en viðskiptavinir áðurnefndra lífeyrissjóða, sem eru tveir af þremur stærstu sjóðum landsins.
Íslandsbanki var síðastur stóru bankanna til að kynna hækkun, alls um 0,2 prósentustig, og óverðtryggðir vextir á sambærilegum lánum við aðra stóra lántakendur hjá bankanum eru nú 4,15 prósent hjá Íslandsbanka.
Hlutdeild banka í útistandandi íbúðalánum er nú um 70 prósent en var 55 prósent í byrjun árs 2020. Á sama tíma hefur vaxtamunur bankanna þriggja: Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka haldist svipaður en hagnaður þeirra stóraukist. Þeir högnuðust samtals um 60 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2021, sem er meira en þeir hafa hagnast innan árs frá árinu 2015.
Óverðtryggðu lánin taka yfir
Eftir skarpa stýrivaxtalækkun Seðlabankans í fyrravor, sem var viðbragð við kórónuveirufaraldrinum þá ákvað bankinn líka að afnema tímabundið sveiflujöfnunarauka á eigið fé íslensku bankanna til að auka útlánagetu þeirra.
Fyrir vikið urðu óverðtryggð lán mun hagstæðari en verðtryggð og eðlisbreyting varð á lántökum landsmanna. Óverðtryggðu lánin er enn mun hagstæðari en þau verðtryggðu í ljósi þess að verðbólga mælist 4,8 prósent um þessar mundir, en ódýrustu nafnvextir á slíkum lánum eru nú vel yfir sex prósent.
Hlutfall óverðtryggðra lána af öllum íbúðalánum var 27,5 prósent í byrjun árs 2020 en er nú komið yfir 50 prósent. Þau bíta lántakendur strax í budduna þegar vextir hækka.