Eigendur Strætó, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þyrftu að leggja félaginu til um 750 milljónir króna aukalega á ársgrundvelli til þess að félagið gæti ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar í vagnaflota og þar með talist í sjálfbærum rekstri, að sögn Jóhannesar S. Rúnarssonar framkvæmdastjóra Strætó.
Jóhannes segir í samtali við Kjarnann að þetta sýni grófir útreikningar sem gerðir hafi verið innan fyrirtækisins.
Á stjórnarfundi Strætó um miðjan mánuðinn var bág fjárhagsstaða Strætó til umræðu og þeirri spurningu varpað fram til stjórnarmanna, kjörinna fulltrúa í sveitarfélögunum sex sem eiga Strætó, hversu mikið fé sveitarfélögin gætu lagt Strætó aukalega til á þessu ári.
Jóhannes segir að umræður og viðræður um þetta séu í gangi og að eigendafundur muni fara fram í byrjun september þar sem þessi mál verða rædd frekar.
Á þessu ári hefur Strætó þegar fengið framlög frá eigendum greidd fyrirfram, með þeim hætti að í tvöfalt mánaðarlegt framlag var greitt einn mánuðinn, til þess að Strætó hefði handbært fé til þess að spila úr. Það þýðir að í raun er búið að greiða framlagið sem til stóð að yrði greitt út í desembermánuði til Strætó nú þegar.
Rekstrartap Strætó var 599 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins, en áætlanir gerðu ráð fyrir því að tapið yrði 116 milljónir króna. Í árshlutareikningi Strætó segir að lakari afkoma skýrist einkum af því að sú tekjuaukning sem fjárhagsáætlun tímabilsins gerði ráð fyrir hafi ekki skilað sér, sem meðal annars megi rekja til áhrifa heimsfaraldursins.
Fargjaldatekjur, sem jukust þó um 12 prósent á milli ára, voru 97 milljónum undir áætlun og rekstrarkostnaður 325 milljónum yfir áætlun, að undanskildri Pant akstursþjónustunni.
Hærri rekstrarkostnaður en gert var ráð fyrir er sagður skýrast af því að niðurskurður sem gert var ráð fyrir í upphafi árs hafi ekki komið til framkvæmda fyrr en í apríl, auk þess sem aðfangakostnaður hafi hækkað og yfirvinna aukist.
Undir lok júní var handbært fé Strætó 733 milljónir króna, en þar af voru 400 milljónir króna eyrnamerktar fyrirhuguðum vagnakaupum og 347 milljónir króna voru fyrirframgreitt framlag eigenda.
Hvaðan koma tekjur Strætó?
Á árinu 2021 námu tekjur Strætó, fyrir utan tekjur af akstursþjónustunni Pant, 7,28 milljörðum króna.
Þar af var framlag eigendanna, sveitarfélaganna sex, tæpir 4,06 miljarðar. Auk þess nam framlag ríkisins tæpum 1,03 milljörðum.
Fargjaldatekjur síðasta árs námu 1,84 milljörðum og aðrar tekjur fyrirtækisins 351 milljón króna.
Reykjavíkurborg er langstærsti eigandi Strætó bs. og á 60,3 prósent í fyrirtækinu. Kópavogsbær á 14,6 prósent, Hafnarfjarðarbær 12,5 prósent, Garðabær 6,24 prósent, Mosfellsbær 4,07 prósent og Seltjarnarnesbær 2,29 prósent.
Rekstrarframlög til fyrirtækisins eru oftast nær greidd í réttu hlutfalli við eignarhlutinn.
Það þýðir að ef Strætó fengi 750 milljóna aukin framlög á árinu myndi Reykjavíkurborg greiða rúmar 452 milljónir af þeirri upphæð. Kópavogsbær myndi greiða 109,5 milljónir, Hafnarfjörður 93,75 milljónir, Garðabær 46,8 milljónir, Mosfellsbær tæpa 31 milljón og Seltjarnarnesbær rúmar 17 milljónir.