Einn miði í strætisvagn á höfuðborgarsvæðinu mun kosta 550 krónur frá og með 1. október, en fyrra verð var 490 krónur. Einnig hækka árskort og mánaðarkort í vagnana um samsvarandi hlutfall, eða 12,5 prósent.
Ákvörðun um þessa hækkun var tekin á stjórnarfundi Strætó 16. september síðastliðinn, en í fréttatilkynningu frá Strætó segir að hækkunum sé ætlað að mæta almennum kostnaðarverðshækkunum á aðföngum Strætósvo sem olíuverðshækkunum og kostnaði vegna vinnutímastyttingar, sem hafi „haft veruleg áhrif á reksturinn“.
„Ávallt er reynt að stilla öllum verðhækkunum Strætó í hóf og er hækkuninni ætlað að draga úr þörf á frekari hagræðingu í leiðarkerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt munu sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu skoða að styrkja rekstur Strætó frekar en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins 2022,“ segir í tilkynningu frá Strætó.
Gjaldskrá Strætó var síðast hækkuð um áramótin 2020-21 en tók þó einnig smávægilegum breytingum við innleiðingu Klapp-forritsins undir lok síðasta árs.
Frá því í janúar 2021 og þar til í ágúst síðastliðnum hækkaði almennt verðlag á Íslandi um 13,3 prósent og eru hækkanir á fargjöldum Strætó, upp á 12,5 prósent sem áður segir, því ekki að halda í við verðbólgu á þessu tímabili.
Árskort fullorðinna í 90 þúsund
Breytingarnar á gjaldskránni þýða að árskort fullorðinna fer úr 80 þúsund krónum í 90 þúsund krónur, mánaðarkort fullorðinna fer úr 8 þúsund krónum í 9 þúsund krónur. Árskort fyrir ungmenni og aldraða fara úr 40 þúsund krónum í 45 þúsund og mánaðarkort úr 4.000 krónum í 4.500 krónur.
Árskort öryrkja hækka úr 24.000 krónum í 27.000 krónur og mánaðarkort öryrkja fer úr 2.400 krónum í 2.700 krónur.