Straumur fjárfestingabanki hefur keypt 9,99% hlut af hollenska félaginu Manastur Holding B.V. og 9,54% hlut af breska félaginu Linley Limited í MP banka. Eignarhlutur Straums verður því samtals 19,53%, sem telst virkur eignarhlutur samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Viðskiptablaðið greinir frá þessu á vef sínum og vitnar í útgáfu blaðsins á morgun.
Mbl.is greindi ítarlegar frá málinu á vef sínum í dag, en eigendur fyrrnefndra félaga, sem eru að selja hluti sína, eru Bretinn Joseph Lewis og síðan Rowland fjölskyldan, sem á meðal annars Banque Havilland í Lúxemborg, sem varð til á grunni Kaupþings í Lúxemborg.
Kaupverð hlutanna er í fréttunum er sagt vera trúnaðarmál og fæst ekki uppgefið.
Kaupin bíða nú samþykkis hjá Fjármálaeftirlitinu, samkvæmt fréttinni á vb.is. Gangi þau eftir mun Straumur vera stærsti eigandi í MP banka. næststærsti eigandi verður að öllu óbreyttu félagið Títan B ehf. í eigu Skúla Mogensen með 9,91% eignarhlut, að því er fram kemur á vb.is.