Róttæki vinstriflokkurinn Syriza, sem vann stórsigur í grísku þingkosningunum í gær, hefur myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðum Grikkjum, hægri flokki sem er á móti aðhaldsaðgerðum.
Flokkarnir tveir eru samtals með 162 sæti af 300 í gríska þinginu. Þar af er Syriza með 149 og Sjálfstæðir Grikkir 13.
Viðræður milli flokkanna hófust í morgun og tóku innan við klukkustund. Þá kom Panos Kommenos, leiðtogi Sjálfstæðra Grikkja, út úr höfuðstöðvum Syriza, og tilkynnti um samstarf flokkanna. „Forsætisráðherrann mun fara á fund forsetans...og ríkisstjórn verður tilkynnt af forsætisráðherranum. Markmiðið fyrir alla Grikki er að hefja nýjan dag með algjört fullveldi.“
#GreekElections we have a new government announces on greek TV Kamenos leader of independent greeks ... pic.twitter.com/CcG0ncXDqg
— tsamadosantiques.com (@AthensAntiques) January 26, 2015
Fréttir herma að Giannes Dragasakis, þingmaður Syriza, verði yfirmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins og leiði viðræður við Evrópusambandið.
Þá ætlar Alezis Tsipras, leiðtogi Syriza, að hitta aðra flokksformenn í dag eftir að hann hefur fengið formlegt umboð til að mynda ríkisstjórn.
Þessi frétt verður uppfærð.